Íslenski boltinn

Þróttur semur við Brasilíumann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Borges með Þróttaratreyjuna í dag.
Borges með Þróttaratreyjuna í dag. vísir/getty
Nýliðar Þróttar í Pepsi-deild karla í fótbolta kynntu í dag Brasilíumanninn Thiago Borges sem nýjan leikmann félagsins á blaðamannafundi í Laugardalnum.

Borges kemur til Þróttar frá Vestsjælland í Danmörku þar sem hann hefur verið á mála síðan 2013. Hann var lánaður í fyrra til AB og fyrri hluta þessa tímabils til Skive í 1. deildinni í Danmörku.

Þessi 27 ára gamli Brassi er sóknarsinnaður miðjumaður en getur einnig spilað frammi og á kantinum. Hann hefur ekki skorað í Danmörku síðan í lok október 2013.

Borges er fimmti leikmaðurinn sem nýliðarnir í Laugardalnum fá til sín fyrir komandi átök í Pepsi-deildinni í sumar.

Fyrir eru komnir Aron Þórður Albertsson frá HK, Brynjar Jónasson frá Fjarðabyggð, Sebastian Svard frá Danmörku og Emil Atlason frá KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×