Innlent

Þremur unglingum ógnað í Breiðholti og úlpu rænt af einum þeirra

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Breiðholti.
Frá Breiðholti. vísir/gva
Ráðist var á þrjá unglinga við Breiðholtsskóla á horni Arnarbakka og Núpabakka á ellefta tímanum í gærkvöldi. Höfðu ræningjarnir tveir karrýgula 66° norður úlpu af einum unglinganna en Gylfi Sigurðsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöð 3 á Dalvegi í Kópavogi, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, segir málið til rannsóknar.

Unglingarnir þrír eru sagðir á aldrinum 15 til 16 ára en ræningjarnir sagðir á fullorðinsaldri. Samkvæmt atvikalýsingu sem lögreglan býr yfir fannst drengnum sem var rændur úlpunni hann sjá glitta í hnífsblað hjá einum ræningjanna en Gylfi segir þá lýsingu óljósa. Talað hefur verið um að ræningjarnir hafi einnig ógnað unglingunum með sprautunál en Gylfi segist í samtali við Vísi ekki hafa upplýsingar um það.

Rætt hefur verið foreldra drengsins sem tapaði úlpunni í hendur ræningjanna og er málið til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Uppfært klukkan 11:12:Hér áður var sagt að unglingarnir væru yfir átján ára aldri. Svo er ekki heldur eru þeir á aldrinum 15 - 16 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×