Innlent

Þorsteinn hrósar Eygló fyrir mikilsverðan minnisvarða

Snærós Sindradóttir skrifar
Þorsteinn var ánægður við lyklaskiptin.
Þorsteinn var ánægður við lyklaskiptin. vísir/vilhelm
Fréttablaðið náði tali af þeim sem nú taka við ráðherraembætti og spurði þau sömu fimm spurninganna. Þorsteinn Víglundsson er nýr félags- og jafnréttismálaráðherra.

Hvert verður þitt fyrsta verk?

Við munum leggja mjög mikla áherslu á jafnréttismálin en jafnlaunavottun verður fyrsta málið sem ég stend fyrir í ráðuneytinu.

Hvað gerði forveri þinn vel í starfi?

Hún vann auðvitað heilmikið afrek í kringum endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni sem er viðamikið verkefni sem þó nokkrir ráðherrar hafa tekist á við án þess að hafa tekist að ljúka. Hún skilur eftir sig mikilsverðan minnisvarða í þeim málaflokki.

Hvað hefði betur mátt fara hjá forvera þínum?

Það er kannski ekki mitt að dæma en vafalítið munu áherslur okkar vera ólíkar. Auk almannatryggingamála mun ég leggja áherslu á jafnréttismálin og með þær áskoranir sem eru á vinnumarkaði mun ráðuneytið vinna mikið með vinnumarkaðnum til að tryggja frið og stöðugleika á honum.

Hvaða verkefni verður fyrirferðarmest í þínu ráðuneyti á kjörtímabilinu?

Hvað þetta ráðuneyti varðar þá held ég að fyrirferðarmesta verkefnið verði jafnréttismálin og vinnumarkaðurinn.

Sóttist þú sérstaklega eftir þessu ráðuneyti?

Já. Mér þótti þetta mjög spennandi ráðuneyti að takast á við. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×