Íslenski boltinn

Þorsteinn: Vorum yfirburðalið á vellinum í fyrri hálfleik

Smári Jökull Jónsson á Laugardalsvelli skrifar
Þorsteinn gefur bendingar á hliðarlínunni.
Þorsteinn gefur bendingar á hliðarlínunni. vísir/hanna
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari nýkrýndra bikarmeistara Breiðabliks, var ánægður með sínar stelpur þegar Vísir náði tali af honum á Laugardalsvelli eftir sigurinn á ÍBV í úrslitaleik Borgunarbikarsins.

„Ég myndi segja að þetta væri sanngjarn sigur. Við vorum yfirburðalið á vellinum í fyrri hálfleik, fengum mark á okkur snemma í seinni hálfleik og þá kom smá skjálfti í okkur,“ sagði Þorsteinn í leikslok.

„Við sköpuðum flest færin í leiknum og vorum að opna þær nokkuð vel. En það kom smá skjálfti í okkur þegar við fengum á okkur markið og við hættum að ná að halda boltanum innan liðsins.

„Þetta var hörkuleikur í seinni hálfleik en við náðum að svara þeirra marki ágætlega, vorum öguð og byrjuðum að opna vörnina hjá þeim aftur,“ bætti Þorsteinn við.

„Það skipti máli að við skyldum skora strax í upphafi. Það er vont að mæta í úrslitaleik og fá mark á sig snemma. Maður sá að þeim leið ekki vel og það kom mikill skjálfti í Vestmannaeyjaliðið. Við náðum að nýta okkur það og spiluðum flottan fyrri hálfleik en sá seinni var jafnari.“

Blikar eru ríkjandi Íslandsmeistarar og bæta nú bikarnum í safnið. Þorsteinn sagði stefnuna setta á að verja titilinn.

„Við ætlum að keppa um næsta bikar, það er ekki spurning. Við fögnum í dag og svo þurfum við bara að byrja að undirbúa okkur fyrir Íslandsmótið. En það er frábært að vinna í dag,“ sagði Þorsteinn kátur að lokum.


Tengdar fréttir

Rakel: Farin heim að sofa

Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Breiðabliks, var kampakát eftir að Blikar tryggðu sér sigur í Borgunarbikarnum með 3-1 sigri á ÍBV í úrslitaleik í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×