Innlent

Þjóðhöfðingjar verði ekki móðgaðir af Íslendingum

Samúel Karl Ólason skrifar
Utanríkisráðuneytið vill ekki að lög um móðganir gagnvart þjóðarhöfðingjum, þjóðum, fánum og fleira, verði felld niður, eins og sex þingmenn Vinstri grænna hafa lagt til.

Afstaða ráðuneytisins helgast af skuldbindingum Íslands og þá meðal annars Vínarsamningnum sem varðar friðhelgi sendiráða, erindreka og fleira.

Fyrst var sagt frá málinu á vef RÚV.

Eftir því hve alvarlegt brotið þykir gæti refsing varðað allt að sex ára fangelsi.

Þingmennirnir sex segja að lagaákvæðinu hafi sjaldan verið beitt hér á landi og enn sjaldnar hafi dómar fallið á grunni þeirra. Þeir fáu dómar séu þó landi og þjóð ekki til sóma.

„Þannig hlaut rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson dóm fyrir að kalla Adolf Hitler blóðhund og skáldið Steinn Steinarr fyrir að smána hakakrossfána þýska nasistaflokksins. Óhætt er að segja að sagan hafi farið mjúkum höndum um þau afbrot,“ segir í greinargerðinni.

Í umsögn um breytingatillöguna segir ráðuneytið að ekki hafi verið færð fram rök í greingargerð frumvarpsins sem sýni fram á vandkvæði í lagagreininni hér að ofan. Þá sé ekki einsýnt að brottfelling ákvæðisins myndi auka bæta tjáningarfrelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×