Innlent

Þjóðareign.is: Tæplega 36 þúsund manns skrifað undir

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra. Vísir/Vilhelm
Tæplega 36 þúsund manns hafa nú skrifað undir undirskriftarlista gegn makrílfrumvarpi sjávarútvegsráðherra á þjóðareign.is.

Í tilkynningu frá aðstandendum söfnunarinnar segir að hún sé nú ein af þeim fjölmennustu sem hafi verið efnt til hér á landi. „Undirskriftasöfnunin er komin langt yfir 10% - mark kosningabærra manna, sem tillaga Stjórnlagaráðs gerði ráð fyrir sem nægjanlegum fjölda undirskrifta, sem þyrfti til að krefjast þjóðaratkvæðis um einstök þingmál.“

Benda þeir á að ríkissáttasemjari hafi látið hafa eftir sér að meðal þeirra atriða sem hafi leitt til hinna hörðu vinnudeilna sé vanþóknun launafólks á því hvernig hátti skiptingu arðs af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Í viðtali hafi hann sagt að hann haldi að sé heilmikil ólga í samfélaginu. „Við sjáum átök hér um fjölmörg málefni ekki bara um kaupið heldur um ýmis önnur atriði í samfélaginu. Það er skipting auðlindanna, arðurinn af auðlindum, hvernig á að skipta því.“

Aðstandendur söfnunarinnar segja að þátttaka sýni fram á hina gríðarlegu undirliggjandi óánægju í samfélaginu um skipan sjávarútvegsins og að auðlind í almannaeigu, fiskveiðiheimildunum, skuli úthlutað með þeim hætti sem nú sé gert. „Slíkt ætti að verða ríkisstjórninni hvatning til að leita raunverulegra sátta við þjóðina um hvernig standa eigi að úthlutun fiskveiðiheimilda í framtíðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×