Fótbolti

Þetta er ástæðan fyrir því að Rúnar Alex var í liði umferðarinnar | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Alex stóð sig vel á móti Lyngby.
Rúnar Alex stóð sig vel á móti Lyngby. vísir/getty
Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður Nordsjælland, var í liði sjöundu umferðar dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta hjá Tipsbladet fyrir frábæra frammistöðu í 1-0 sigurleik í nágrannaslag gegn Lyngby í síðustu viku.

Rúnar hafði nóg að gera í markinu enda varnarleikur liðsins ekki verið til útflutning á tímabilinu. Liðið var búið að fá á sig fjórtán mörk í sex leikjum áður en kom að leiknum gegn Lyngby.

Þessi 21 árs gamli markvörður U21 árs landsliðs Íslands varði allt sem kom á markið og átti hvað stærstan þátt í því að tryggja sínum mönnum mikilvægan 1-0 sigur.

Þetta var aðeins annar sigur Nordsjælland á tímabilinu en það vann einnig í fyrstu umferð og hélt þá hreinu en síðan þá var liðið búið að fá á sig mark í fimm leikjum í röð.

Nordsjælland er í ellefta sæti af fjórtán liðum eftir sjö umferðir með sjö stig en Rúnar Alex er búinn að spila alla leikina fyrir danska liðið.

Hér að neðan má sjá myndband frá Nordsjælland þar sem búið er að draga saman þessa frábæru frammistöðu Rúnars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×