Innlent

Telur verið að traðka á rétti launafólks

Sveinn Arnarsson skrifar
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA

Vilhjálmur Birgisson gagnrýnir Samband íslenskra sveitar­félaga harðlega fyrir að hengja SALEK-samkomulagið inn í gerð kjarasamninga við ein 35 stéttarfélög. Hefur verkalýðsfélagið boðað til áríðandi neyðarfundar í dag með starfsmönnum Akraneskaupstaðar.

„Þetta er lúmskt bragð til að taka frjálsan samningsrétt af íslenskum launþegum. Út á það gengur þetta því miður. Þetta er það alvarlegasta sem íslensk verkalýðshreyfing hefur staðið frammi fyrir í sögunni,“ segir Vilhjálmur.

Fundurinn er boðaður til að upplýsa starfsmenn Akraneskaupstaðar um stöðu mála. Segir í tilkynningu að þetta sé ofbeldi og að verið sé að traðka á rétti launafólks.

„Þeir sem fagna mest þessu nýja fyrirkomulagi um SALEK-hópinn eru Samtök atvinnulífsins, sveitarfélög, fjármálaráðherra og launagreiðendur í landinu. Það á að koma böndum á að fólk geti komið og sótt af afli sínar launahækkanir,“ segir Vilhjálmur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×