Innlent

Telur Ísland og Frakkland geta náð góðum árangri saman á alþjóðavettvangi

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Ségólene Royal, ráðherra umhverfismála, sjálfbærrar þróunar og orkumála Frakklands er í opinberri heimsókn hér á landi í boði utanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Royal fundaði í dag með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra í Hellisheiðarvirkjun og hitti svo forseta Íslands á Bessastöðum síðdegis. Á morgun mun hún funda með Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra þar sem undirritað verður samkomulag um samstarf milli jarðhitaklassa á Íslandi og Frakklandi.

"Það eru frönsk fyrirtæki og svo eru það vináttubönd Íslands og Frakklands. Ég hef nokkrum sinnum hitt forseta Íslands á alþjóðlegum ráðstefnum um endurnýjanlega orkugjafa. Það er mikil samkeppni við bandarísk fyrirtæki og ég held að ef Frakkland og Ísland vinna saman á jarðhitamarkaðnum þá getum við náð góðum árangri á alþjóða vettvangi,“ segir Ségólene Royal.

Utanríkisráðherra segir samstarfið við Frakka mikilvægt þar sem Íslendingar séu að leggja áherslu á endurnýtanlega orku.

„Og sér í lagi jarðhitann. Jarðhitinn er vannýtt auðlind , það eru 90 lönd sem búa við einhvers konar jarðhita og það að fá frakka með okkur í lið er mjög mikilvægt mál. Og Íslendingar hafa mikið fram að færa, sérstaklega okkar tæknimenn og verkfræðingar og annað þegar að þessu kemur. Þannig að þetta er mjög jákvætt og skemmtilegt og ánægjulegt að frakkar skuli sýna þessu svona mikinn áhuga,“ segir Gunnar Bragi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×