Lífið

Taupokar og tattú

Baldvin Þormóðsson skrifar
Gréta Þorkelsdóttir og Árni Gunnar Eyþórsson taka sig vel út í bolunum.
Gréta Þorkelsdóttir og Árni Gunnar Eyþórsson taka sig vel út í bolunum. mynd/aðsend
„Grunnhugmyndin var að þetta ætti að vera pönkað og taupokarnir eru dálítið þannig,“ segir Helga Dögg Ólafsdóttir en hún er nemi á fyrsta ári í grafískri hönnun í Listaháskólanum ásamt Steinarri Ingólfssyni og Grétu Þorkelsdóttur.

Þau bekkjarsystkinin gengu til liðs við skipuleggjendur Druslugöngunnar til þess að gera varning fyrir gönguna.

„Plakötin eru síðan meira grafísk,“ segir Helga en plakötin eru öll handgerð og silkiþrykkt í bílskúr á Vesturgötunni. „Bakgrunnurinn er rúmlak og stafirnir eru skrifaðir með bleki, við vildum hafa sterkar setningar sem segja ekki of mikið.“

Helga segir mikla vinnu hafa farið í að hanna og gera allan varninginn. „Þetta er svo viðkvæmt mál,“ segir hún. „Það var mjög erfitt að komast að niðurstöðu um hvernig við ætluðum að tækla þetta.“

Helga Dögg segir það hafa verið frábært að vinna með aðstandendum göngunnar en meðal þess sem áhugasamir geta borið í nafni Druslugöngunnar eru bolir, taupokar og svonefnd tyggjótattú sem hægt er að þrykkja á líkamann.

Áhugasamir geta nálgast pokana og bolina á bjórkvöldi Druslugöngunnar sem fer fram annað kvöld á Brikk klukkan 20:00. Það kvöld verður lagið D.R.U.S.L.A. frumflutt en lagið er samstarfsverkefni Reykjavíkurdætra, Halldórs Eldjárn og Ásdísar Maríu og var samið sérstaklega fyrir gönguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×