Fótbolti

Svefnsjúkur sparkspekingur skeytir skapi sínu á Íslendingum

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Vasilij er umdeildur í heimalandinu
Vasilij er umdeildur í heimalandinu
Rússneski sparkspekingurinn Vasilij Utkin, sem samkvæmt Wikipedia síðu sinni er þekktur fyrir hneykslanlega hegðun og staðreyndavillur, vandar Íslendingum og íslenskri knattspyrnu ekki kveðjurnar í nýju myndbandi.

Utkin er meðal annars stjórnandi sjónvarpsþátta um fótbolta og einn af eigendum vefsíðunnar sports.ru sem er rússnesk íþróttasíða eins og glöggir lesendur kunna að hafa getið sér til.

Í myndbandinu um Ísland segir Utkin að það virðist vera yfirlýst markmið íslenska landsliðsins á HM að koma í veg fyrir að hin liðin geti leikið almennilega knattspyrnu. Það sé engin önnur hugsun á bak við leik íslenska liðsins.

Utkin rekur þetta meðal annars til þess að Íslendingar séu afkomendur þeirra aumingja sem urðu undir á tímum víkinga og hafi þurft að flýja undan sér sterkara fólki til afksekktrar eyju þar sem meira að segja sauðfé fékk ekki þrifist.

Segist Utkin ekki skilja hvers vegna svo margir dáist að íslenska liðinu. Því fyrr sem Íslendingarnir láti sig hverfa af mótinu, aftur heim á vit sinna elskuðu eldfjalla, því betra.

Þess má geta að Vasilij Utkin komst síðast í heimspressuna árið 2016 þegar hann afrekaði það að vera settur í ótímabundið leyfi sem leiklýsandi fyrir að sofna í miðjum leik Barcelona og Bayer Leverkusen. Hann bar því við að þjást af svefnsýki. Fyrir HM í knattspyrnu í Rússlandi sagðist hann hafa tekið fyrsta boði sem hann fékk til að lýsa leikjum og gaf launin til góðgerðarmála.

Þá hefur Utkin ítrekað komist í hann krappann fyrir ummæli sín um kollega og fólk í rússneska íþróttaheiminum.

Það má ekki heldur gleyma þessu skemmtiatriði sem kom honum aftur í heimspressuna um skamma hríð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×