Innlent

Styttist í arðbæra skógrækt

Freyr Bjarnason skrifar
Formaðurinn við setningu aðalfundar Skógræktarfélags Íslands á Akranesi.
Formaðurinn við setningu aðalfundar Skógræktarfélags Íslands á Akranesi. Mynd/Ragnhildur Freysteinsdóttir
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn á Akranesi um síðustu helgi og heppnaðist hann afar vel.

„Það sem stendur upp úr er að það styttist óðum í að ræktun skógar verði arðbær atvinnuvegur þegar til framtíðar er litið,“ segir Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og bætir við að undanfari þess sé samningur sem var gerður við Elkem fyrir nokkrum árum. Hann snýst um að félagið grisji skóga og selji viðinn m.a. til Elkem og síðar meir hugsanlega til verksmiðja sem eiga að rísa á Bakka og á Reykjanesi.

„Í langri framtíð vitum við að það er eftirspurn eftir viði og við munum aldrei geta fullnægt henni að fullu á næstu árum og áratugum. En það er ánægjulegt að vita af þessum möguleika að á sama tíma og þú ert að byggja upp skóg getir þú selt grisjunarviðinn,“ segir Magnús. „Þó að ábatinn sé ekki verulegur stendur þetta undir kostnaði.“

Síðastliðið vor var þingsályktunartillaga einmitt samþykkt á Alþingi um að stórefla skógrækt á Íslandi sem arðsama atvinnugrein. Á aðalfundinum var því jafnframt fagnað að í nóvember í fyrra var skrifað undir samning um 35 milljóna króna framlag á ári næstu fimm árin í nýskógrækt, eða landgræðslu. Síðan átakið hófst árið 1990 hefur að meðaltali verið plantað um 7-800 þúsund plöntum á ári hverju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×