Lífið

Stórleikari hreppir dularfullt hlutverk í Game of Thrones

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Silfurrefurinn Ian McShane er margverðlaunaður.
Silfurrefurinn Ian McShane er margverðlaunaður. Vísir/getty
Stórleikaranum Ian McShane mun bregða fyrir í næstkomandi þáttaröð Game of Thrones, sem verður sú sjötta í röðinni.

Framleiðendur þáttanna hafa ekkert viljað gefa upp um hvaða hlutverk McShane muni hljóta í þáttaröðinni sem kunnugir vilja meina að verði sú dularfyllsta til þessa.

Talið er að söguþráður sjöttu þáttaraðarinnar hafi ekki áður litið dagsins ljós í bókum George R. R. Martin en þrátt fyrir það telur Entertainment Weekly sig hafa heimildir fyrir því að persóna McShane vegi þungt í atburðarásinni sem framundan er í Westeros. Hún muni þó ekki vera mikið á skjánum.

Mörgum hafa þótt það sorglegar fréttir enda er breski leikarinn margverðlaunaður fyrir túlkun sína á hinum ýmsu hlutverkum, svo sem hinum morðóða Al Swearengen í Deadwood. Þá hefur hann einnig leikið í stórmyndum á borð við Pirates of the Caribbean: On Stranger Tides, John Wick og Kung Fu Panda.

Framleiðsla er hafin á sjöttu þáttaröð Game of Thrones sem frumsýnd verður með vorinu.

Mögulega verða framleiddar þrjár þáttaraðir af Game of Thrones til viðbótar en þetta gefa yfirmenn HBO í skin og segja að alls verði seríurnar átta, en ekki sjö eins og áður hafði verið greint frá. BBC segir einnig frá því að mögulega verði framleiddi þættir sem eiga að gerast fyrir þann tíma sem þættirnir fjalla um í dag.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×