Lífið

Stofnaði félag nemenda með íslenskuna sem annað mál

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Giedre Razgute er kraftmikill nemandi við Háskóla Íslands sem hefur stofnað félagsskap nemenda sem hafa íslensku sem annað mál. Þá bauð hún sig fram ein til stúdentaráðs en það hafði ekki gerst í fjörutíu ár.
Giedre Razgute er kraftmikill nemandi við Háskóla Íslands sem hefur stofnað félagsskap nemenda sem hafa íslensku sem annað mál. Þá bauð hún sig fram ein til stúdentaráðs en það hafði ekki gerst í fjörutíu ár. Visir/Ernir
Giedre Razgute kom til Íslands árið 2014 til að læra íslensku við Háskóla Íslands. Hún hefur látið mikið að sér kveða í félagslífi stúdenta. Hún bauð sig fram í einstaklingsframboði til stúdentaráðs Háskóla Íslands og var fyrsta manneskjan í yfir fjörutíu ár til þess að gera það. Í byrjun febrúar lét hún svo til skarar skríða og stofnaði félag nemenda í Háskóla Íslands sem hafa íslensku sem annað mál, Huldumál.

„Í tíma síðasta haust ræddum við félagslíf í Háskóla Íslands og lærðum meira um nemendafélög og hlutverk þeirra í háskólanum. Það kom í ljós að það var fyrir nokkrum árum nemendafélag í íslensku sem öðru máli en það varð óvirkt fyrir löngu síðan. Nemendur í okkar námi eru í sérstakri stöðu innan háskólans því þeir eru ekki íslenskunemendur en flestir eru ekki heldur skiptinemar. Ég og nokkrir nemendur ræddum málið frekar og ákváðum að svona nemendafélag yrði bæði gagnlegt og skemmtilegt. Við héldum fyrsta skipulagsfundinn í október og svo hélt ferlið áfram og félagið var stofnað 1. febrúar. Fundir eru opnir öllum nemendum í náminu.“

Margt spennandi er á döfinni hjá félaginu á næstu dögum. „Fyrsti viðburður er kvikmyndakvöld í Stúdentakjallaranum. Við ætlum að horfa á Bjarnfreðarson sem okkur finnst sérstaklega skemmtileg íslensk kvikmynd svo það er góð byrjun. Einnig viljum við halda pallborðsumræður um þýðingar frá íslensku yfir á önnur tungumál og öfugt af því að margir okkar í náminu hafa áhuga á þýðingum. Við erum líka að pæla í að halda pub-quiz um íslenska tungu og fara í vísindaferðir en við gerum þetta líklegast næsta haust.Okkur langar ekki bara að halda skemmtilega viðburði en fyrst og fremst að vera í sambandi við nemendur í náminu og heyra um þarfir þeirra. Við viljum líka ræða námið sjálft ásamt öðrum nemendum í náminu og sjá hvernig við getum breytt því og gert það betra.“

Einstaklingsframboð Giedre vakti töluverða athygli. Sjálfri fannst henni reynslan góð. „Ég var bara ein lítil stelpa sem enginn þekkti en á sama tíma átti ég að berjast á sama hátt og stúdentafylkingar í kosningabaráttunni. Það sem mér fannst skemmtilegt var að þetta var sögulegt skref að vera fyrsta einstaklingsframboð í 40 ár. Ég vissi alls ekki við hverju ég ætti að búast. Ég gætti fengið 1 atkvæði eða unnið. Þess vegna reyndi ég bara að hafa gaman af þessu og gerði ekki sérstaklega mikið heldur fann út hvernig svona framboð virka. Nú veit ég að ef einhver býður sig fram og gerir aðeins meira en ég í kosningabaráttunni þá er miklar líkur á að vinna.“

Hún hvetur þá sem vilja berjast fyrir hagsmunum stúdenta til að bjóða sig fram. „Ég hvet alla nema í HÍ, sem vilja berjast fyrir hagsmunum stúdenta og eru með hugmyndir um hvernig er hægt að virkja stúdentaráð og að breytingum til góðs í Háskólanum, til þess.“

Það munaði litlu hjá Giedre, aðeins tíu atkvæði vantaði upp á að hún fengi kosningu í ráðið. Hún segist hafa verið örlítið svekkt þegar hún frétti af því hversu lítið hefði vantað upp á. „Jú, pínulítið, en bara fyrstar tíu mínúturnar. En samt, ég er mjög ánægð með úrslitin. Ég hafði það markmið þegar ég bauð mig fram að vera ekki sú síðasta og ég náði því. Af 11 framboðum á Hugvísindasviði var ég sjötta. Annað markmið var að sýna fram á það að það eru aðrir möguleikar á að taka þátt í kosningum til stúdentaráðs og ég vona að við sjáum fleiri einstaklingsframboð næsta ár. Ég vildi einnig draga athygli að nemendum í íslensku sem öðru máli. Ég held að mér hafi tekist það og ég er afar ánægð með það að við erum loksins búin að stofna nemendafélag.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×