Innlent

Stöðugt minna flutt inn af bensíni og olíu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Innflutningur á olíu og bensíni verður 16 prósentum minni árið 2025 en hann er í dag samkvæmt nýrri spá Capacent. Spáin er hluti af viðleitni fyrirtækisins til að leggja mat á verðmæti olíufyrirtækjanna sem hér starfa.

„Lykilforsenda í verðmati olíufélaga er þróun og framtíð á eldsneytismarkaði,“ segir í inngangi skýrslunnar sem kom út undir lok apríl. Samkvæmt spánni dregst innflutningurinn saman um sem nemur tæpum tveimur prósentum á ári að jafnaði.

„Í kjölfar Parísarsamkomulagsins þurfa Íslendingar að skera niður notkun á olíu og jarðefnaeldsneyti. Beinasta og hagkvæmasta leiðin er að rafvæða (og jafnvel vetnisvæða) bílaflotann og endurnýja fiskiskipaflotann,“ segir í riti Capacent.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir spána ekki koma á óvart, enda hafi vísindamenn löngum bent á að jarðefnaeldsneyti sé takmörkuð auðlind sem þrjóta muni á endanum. Því megi allt eins gera ráð fyrir því eftir einhverja áratugi að framleiðslu á bensín- og dísilbílum verði hætt að stærstum hluta.

„Sumir hafa spáð þessu innan áratugar,“ segir Özur, en telur þróunina verða hægari. Á móti komi tækniþróun. „Eyðsla bíla samkvæmt skýrslum frá Orkusetri hefur að jafnaði dregist saman um tæp 40 prósent frá 2005. Og sama á við um útblástur.“ Þessi þróun hægi á ferlinu við að klára þessar auðlindir. „Bensínbíllinn á heilmikið inni. Við sjáum núna koma á markaðinn bíla sem skila fínu afli, en eru kannski með 900 kúbika vél og eyða einum lítra á hundraðið.“

Özur bendir líka á að þótt rafvæðing bílaflotans kunni að henta vel hér á landi þá sé rafmagn víða í heiminum framleitt með kolum og olíu. Hér verðum við að fylgja sömu þróun á bílamarkaði og gerist annars staðar í heiminum. „Bílaframleiðendur horfa ekki á Ísland þegar þeir ákveða að framleiða bíla.“

Auk samdráttar í eldsneytisnotkun heimilanna, aðallega vegna spar­­neytn­ari bíla, bendir Capacent í skýrslu sinni á að töluverð endurnýjun eigi sér stað á fiskiskipaflotanum, en nýju skipin séu sparneytnari en þau eldri. Og þótt innflutningur þotueldsneytis hafi þrefaldast frá 2012 þá séu nýjar flugvélar líka sparneytnari en þær eldri.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×