Innlent

Stjórnarþingmaður segir veiðigjaldið hættulegan landsbyggðarskatt

Kristján Már Unnarsson skrifar
Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segir nýsamþykkt lög um veiðigjald hættuleg fyrir sjávarbyggðir og óttast að smærri útgerðir fari í þrot. Jón var eini stjórnarþingmaðurinn sem ekki studdi þreföldun veiðigjaldsins.

Hann kveðst í samtali við Stöð 2 hafa áhyggjur af sjávarbyggðum og minni útgerðum, einhæfum einyrkjaútgerðum, - að þetta verði of há gjaldtaka og komi út sem hreinn landsbyggðarskattur fyrir byggðarlögin á Vestfjörðum, Snæfellsnesi, Norðurlandi og víðar í kringum landið.

Jón var sá sem Vinstri grænir treystu best fyrir sjávarútvegsráðuneytinu þegar flokkurinn komst til valda og þekkir vel greinina eftir tvö og hálft ár í ráðuneytinu. Hann telur að stærstu fyrirtækin gætu vel hliðrað til, og væntanlega borið þetta gjald, en hin muni eiga erfitt með það.

Fáir þingmenn þekkja landsbyggðina betur en Jón, sem er fæddur á Ströndum, uppalinn á Snæfellsnesi og starfaði og bjó í dreifbýli áður en hann settist á þing.

„Svona mikil gjaldtaka getur leitt til aukinnar samþjöppunar í útgerð. Minni útgerðirnar gefist upp í sinni starfsemi. Þannig að svona mikil inngrip, ófyrirséð, eru að mínu viti hættuleg fyrir þessar sjávarbyggðir sem standa mjög veikt fyrir," segir Jón.

Í þingumræðunum í gærkvöldi stráði Jón salti í sár stjórnarforystunnar með því að lesa upp fimmtán ára gömul rök Steingríms J. Sigfússonar gegn veiðigjaldi, en Steingrímur sagði þá að skatturinn væri óréttlátur og kæmi harkalega niður á sjávarbyggðum, veiðigjald yrði áfall fyrir landsbyggðina og myndi líklega leiða til samþjöppunar og fækkunar eininga.

„Það eru samfélögin úti á landi sem ég ber sérstaklega fyrir brjósti og fyrir þau berst ég," sagði Jón. Viðtalið má sjá hér að ofan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×