Körfubolti

Stefán Karel hættir út af heilahristingum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stefán Karel í leik með Snæfelli gegn ÍR.
Stefán Karel í leik með Snæfelli gegn ÍR. vísir/stefán
Körfuboltakappinn öflugi, Stefán Karel Torfason, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir að hafa fengið ítrekuð höfuðhögg og heilahristinga.

Þessi tíðindi staðfestir Stefán Karel við karfan.is í dag. „Það hefur gengið mun hægar núna að glíma við þetta högg heldur en fyrstu þrjú skiptin, heilahristingarnir eru orðnir því fjórir og mál að komið sé gott. Eins og staðan er núna er ákvörðunin nokkuð endanleg, maður á aldrei að segja aldrei en staðan í dag er bara svona,“ segir Stefán Karel við karfan.is.

Stefán Karel er aðeins 22 ára gamall en er engu að síður búinn að fá heilahristing fjórum sinnum á ferlinum. Nú síðast í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar.

Þá var þessi stóri og sterki strákur að spila sinn fyrsta leik fyrir ÍR gegn sínu gamla félagi, Snæfelli. Það endaði ekki vel því Stefán var fluttur upp á spítala.

Sjá einnig: Stefán Karel: Maður hefur bara einn haus

„Ég ætlaði að snúa mér með boltann í átt að körfunni og fæ þá leikmann úr hinu liðinu beint á blindu hliðina. Þá slokknuðu ljósin og ég man ekki neitt,“ sagði Stefán Karel við Vísi þann 12. október síðastliðinn. Hann vankaðist og varð að eyða nóttinni á sjúkrahúsi. Þar kom í ljós að hann hafði fengið heilahristing. Enn eina ferðina.

Þá var hann engu að síður enn ákveðinn í því að halda áfram.

„Ég ætla að meta þetta viku eftir viku. Ekki flýta mér og komast aftur á gólfið sem fyrst. Ég ætla ekki að hætta strax. Ekki á meðan maður er enn með smá vit í kollinum,“ segir Stefán léttur en hann tekur þetta þó alvarlega. Ég þarf að taka þetta alvarlega. Ég þarf að passa mig betur. Maður hugsar ekki um að maður þurfi að hætta 22 ára gamall en maður hefur bara einn haus og þarf að hugsa með honum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×