Innlent

Starfsóánægja kemur ráðherra á óvart

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fær lykla að utanríkisráðuneytinu frá Gunnari Braga Sveinssyni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fær lykla að utanríkisráðuneytinu frá Gunnari Braga Sveinssyni.
„Ég vissi að utanríkisráðuneytið hefði ekki verið að skora neitt rosalega hátt en samt er þetta dálítið skrítið. Þegar maður kemur þarna inn er fullt af fólki sem vinnur af miklum metnaði. Að sumu leyti kom þetta á óvart en ég vissi þó að síðustu ár hefðu niðurstöður verið svipaðar. Þó ekki jafnslæmar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir um niðurstöður starfsánægjukönnunar SFR. Utanríkisráðuneytið hafnaði í 137. sæti í könnuninni, neðst allra ráðuneyta.

Félagsmenn SFR, starfsmenn 142 ríkisstofnana, voru í janúar og febrúar spurðir um ánægju sína í níu flokkum. Starfsmenn utanríkisráðuneytisins voru einna óánægðastir með launakjör, sem fá einkunnina 2,43 af 5, og ímynd stofnunar, sem fær 2,76.

„Niðurstöðurnar kalla á viðbrögð af okkar hálfu, enda hlýtur vellíðan og ánægja í starfi að vera sameiginlegt markmið okkar allra,“ segir í tölvupósti Lilju til starfsmanna.

Lilja segir næstu skref vera að setjast niður með ráðuneytisstjóra, starfsmannastjóra og þeim sem unnu könnunina og ræða framhaldið. Auk þess stendur til að gera aðra könnun.

Lilja segist bjartsýn á framhaldið. „Ég held það séu sóknarfæri í þessu,“ segir hún. 



Heildarniðurstöður fyrir utanríkisráðuneytið:

  • Stjórnun 3,60
  • Starfsandi 3,97
  • Launakjör 2,43
  • Vinnuskilyrði 3,68
  • Sveigjanleiki í vinnu 4,10
  • Sjálfstæði í starfi 4,02
  • Ímynd stofnunar 2,76
  • Ánægja og stolt 3,75
  • Jafnrétti 3,50

    Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. maí



Fleiri fréttir

Sjá meira


×