Innlent

Starfsmenn Byko á Akureyri gripu ungan þjóf glóðvolgan þegar hann sótti þýfið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Drengurinn hafði falið leikjatölvuna í porti við Byko.
Drengurinn hafði falið leikjatölvuna í porti við Byko. Vísir/ERNIR
Sautján ára drengur var á dögunum dæmdur til að greiða 30 þúsund króna sekt og sæta 30 daga skilorðsbundnu fangelsi fyrir tilraun til þjófnaðar og umferðalagabrot á Akureyri.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra að drengurinn hafi ætlað að stela Playstation 4 leikjatölvu úr verslun Byko á Akureyri í september síðastliðnum. Drengurinn flutti tölvuna út í lokað port, suðvestan við verslunina, þar sem ýmis konar garðhúsgögn voru til sýnis.

Eftir lokun verslunarinnar klifraði drengurinn yfir girðingu til þess að nálgast fenginn í portinu. Þá voru starfsmenn verslunarinnar búnir að skipta tölvunni út fyrir tóman kassa og gripu drenginn glóðvolgan.

Hann var einnig fundinn sekur um að hafa ekið bifhjóli án ökuréttar og án þess að ökutækið væri ábyrgðartryggt frá heimili sínu og að verslun Bykó.

Drengurinn játaði brot sitt skýlaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×