Innlent

Starfsfólk leikskólanna plagað af mikilli streitu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ingibjörg Eyfells segir starfið gefandi en kvartar undan umgjörð leikskólanna.
Ingibjörg Eyfells segir starfið gefandi en kvartar undan umgjörð leikskólanna. Fréttablaðið/Anton
Áhersla er lögð á námskeið um streitustjórnun og núvitund fyrir stjórnendur leikskólastjóra. Þetta segir Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda í leikskólum.

Ástæðan er aukin streita meðal stjórnenda. „Það hefur sýnt sig að eftirspurnin er mikil eftir svona námskeiðum,“ segir Ingibjörg. Hennar tilfinning sé að streitutengd veikindi hafi aukist meðal hópsins.

„Fólk er að fara frá vinnu um tíma og koma með vottorð. Við erum að fá þetta inn á borð til okkar í auknum mæli,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður félags stjórnenda í leikskólum
Undir þetta tekur Ingibjörg Eyfells, leikskólastjóri á Geislabaug, og segir það sama gilda um leikskólakennara á deildunum. Hún segist ekki hafa vísindalega rannsókn máli sínu til stuðnings en að hún telji veikindi innan stéttarinnar meiri en í mörgum öðrum stéttum. „Oft held ég að fólk sé bara þreytt,“ segir hún.

Ingibjörg bendir á að á hennar leikskóla séu fjörutíu stöðugildi en eingöngu þrjár afleysingarstöður. Starfið býður aftur á móti ekki upp á að verkefni séu sett í bið þar til starfsmenn ná fullri heilsu.

„Við erum alla daga með fullt hús af litlum börnum og þeim þarf að sinna. Á hverjum degi eru að meðaltali þrír til fjórir starfsmenn frá vegna veikinda eða leyfa,“ segir Ingibjörg Eyfells.

Ingibjörg Eyfells, leikskólastjóri
Lilja Kolbrún Steinþórsdóttir leikskólakennari rannsakaði streitu leikskólastjórnenda. Hún talaði við átta stjórnendur og höfðu þeir allir fundið fyrir mikilli streitu í starfi og þrír fundið fyrir kulnun í starfi vegna álags. Undirmönnun vegna veikinda hafði mjög streituvaldandi áhrif, almenn mannekla og áhyggjur af faglegu starfi voru einnig þættir sem nefndir voru.

Mannauðssvið Reykjavíkurborgar gerði viðhorfskönnun meðal leikskólakennara á síðasta ári. Sá þáttur sem skoraði langlægst og mesta óánægjan var með var vinnuálagið í starfinu. Einnig hafði óánægja vegna vinnuálags aukist hvað mest frá síðustu könnun sem gerð var árið 2013.

Aðrir þættir sem mest óánægja var með var skortur á viðurkenningu, starfsöryggi, vinnuaðstaða og stjórnun. Þeir þættir sem starfsfólk var ánægðast með voru ímynd leikskóla, tilgangur, markmið, fræðsla og starfsandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×