Innlent

Stærsti fíkniefnafundur í sögu Þjóðhátíðar

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla notast við fjóra fíkniefnahunda við eftirlit.
Lögregla notast við fjóra fíkniefnahunda við eftirlit. Mynd/Óskar Pétur Friðriksson
Lögregla í Vestmannaeyjum handtók tvo menn í gærkvöldi og lagði hald á um tvö hundruð grömm af hvítu efni og 180 e-töflum.

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum stendur nú yfir og er þetta stærsti fíknaefnafundur í sögu hátíðarinnar. RÚV greindi fyrst frá málinu.

Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, segir í samtali við Vísi að um hundrað grömm af amfetamíni og hundrað grömm af kókaíni hafa fundist, ásamt 180 e-töflum. Segir hann áætlað söluandvirði efnanna vera um þrjár milljónir króna.

Jóhannes segir mennina nú gista fangageymslur. „Þeir fara væntanlega í skýrslutökur núna og svo sjáum við til hvort þeim verði sleppt. Þetta er mesta magn sem tekið hefur verið á Þjóðhátíð frá því að við hófum þetta eftirlit okkar.“

Hann segir lögreglu vera með fjóra fíkniefnahunda á hátíðinni.

„Þeir hjálpa til við eftirlit og svo eru sex lögreglumenn sem einungis sinna þessum málaflokki. Eftirlitið er sambærilegt því sem verið hefur síðustu ár, þó að hundarnir séu ef til vill fleiri í ár. Við erum mjög ánægðir að hafa náð þessu svona snemma á hátíðinni og séð til þess að þetta hafi ekki farið í umferð,“ segir Jóhannes.


Tengdar fréttir

Fjórir gistu fangageymslur í Eyjum

Nokkrir álagstímar mynduðust hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu komu engin alvarleg mál upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×