Lífið

Stæltasti lyfjafræðingurinn á vakt

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ragnheiður Kristín Sigurðardóttir
Ragnheiður Kristín Sigurðardóttir Fréttablaðið/Valli
Ragnheiður Kristín Sigurðardóttir er lyfjafræðingur sem hóf að æfa kraftlyftingar fyrir tilviljun, þegar hún vildi koma sér í form eftir barnsburð. Nú, rúmum tveimur árum síðar, er hún Norðurlandameistari í greininni í sínum flokki. Ragnheiður missti báða foreldra sína ung en segist eiga dásamlega tengdaforeldra, sem séu þeim hjónum ómetanleg hjálp.

„Það fyrsta sem fólk sagði við mig þegar ég sagði að ég væri byrjuð í kraftlyftingum var að ég þyrfti að passa mig að verða ekki of mössuð. Það halda margir að þetta sport sé bara fyrir stóra skrokka. Flestar athugasemdir sem ég fæ eru: Þú lítur ekki út fyrir að vera í kraftlyftingum. En þetta er algjör misskilningur. Það er svo mikil mýta að fólk þurfi að vera stórt til að vera sterkt,“ segir Ragnheiður, lyfjafræðingur, móðir, Íslandsmeistari, bikarmeistari og Norðurlandameistari í kraftlyftingum í sínum flokki, létt í bragði.

„Ég keppti í -57 kg flokki og vann flokkinn minn. Ég varð í þriðja sæti í heildarkeppni allra kvenna á mótinu, en var að keppa í þessum þyngdarflokki í fyrsta sinn,“ útskýrir Ragnheiður, en mótið var haldið í Njarðvík þann 22. ágúst síðastliðinn.

Massaður lyfjafræðingur

Ragnheiður stundaði engar íþróttir að ráði í æsku og því kom það mörgum í kringum hana á óvart þegar hún reið á vaðið og hóf að keppa í kraftlyftingum upp úr þrítugu.

„Ég átti mjög stuttan handboltaferil sem barn og var í kikkboxi þegar ég bjó í Argentínu en annars var ég ekkert í íþróttum. Það er samt dálítið skrýtið að ég hafi ekki verið sett í íþróttir því ég var mjög kraftmikið barn og þótti eiginlega skemmtilegast að slást með strákunum,“ rifjar Ragnheiður upp og hlær.

Auk þess að stunda kraftlyftingarnar af kappi vinnur Ragnheiður spennandi starf en hún er er hópstjóri í framleiðslueiningu Sjúkrahúsapóteks Landspítalans.

„Þetta er mjög krefjandi og skemmtileg vinna. Ég tek líka bakvaktir á spítalanum, þannig að þetta er talsverð vinna og meira en fullt starf. Við framleiðum lyf fyrir sjúklinga sem þurfa lyf í æð inni á spítalanum, til dæmis fyrir krabbameinslyfjameðferð, næringu fyrir nýbura og þar fram eftir götunum.“



RagnheiðurFréttablaðið/Valli
Kynntist manninum í lyfjafræði

En Ragnheiður ætlaði ekki alltaf að verða lyfjafræðingur.

„Ég var frekar óákveðin í þessu öllu saman – ég var upphaflega með vinkonu minni í lífefnafræði. Hún ætlaði í efnafræði og ég ætlaði í líffræði, en við vildum vera saman í skólanum þannig að við ákváðum að gera málamiðlun og fara í lífefnafræðina saman. Við sátum nokkra kúrsa með fólki úr lyfjafræði og mér fannst þau vera í mörgum spennandi fögum sem ég fór á mis við. Þannig að ég ákvað að prófa. Ég sá ekki eftir því. Ég kynntist manninum mínum strax á fyrsta ári,“ rifjar Ragnheiður upp.

„Við vorum saman í bekk í fimm ár og erum ennþá saman – nýgift,“ heldur hún áfram, en parið gifti sig í október í fyrra.

„Hann heitir Kjartan Hákonarson og er lyfjafræðingur hjá Icepharma. Auk þess spilar hann á trompet með fjöldamörgum hljómsveitum. Það er nóg að gera hjá fjölskyldunni,“ segir hún og hlær, en Bergrún Agnes, dóttir þeirra, varð þriggja ára gömul nú í júlí.

En hvernig er tími fyrir þetta allt saman og það að halda úti heimili? 



Ragnheiður hlær og segist eiga dásamlega tengdaforeldra. „Þau búa í næstu götu og hjálpa okkur rosalega mikið. Við skipuleggjum flesta daga vel og pössum upp á að eiga góðar samverustundir.“

Gekk bróður sínum í móðurstað

„Ég missti mömmu mína árið 1995, þegar ég var að verða fjórtán ára. Hún dó úr krabbameini. Upphaflega sögðu læknarnir að hún ætti eftir að lifa í stuttan tíma, en hún barðist hetjulega og lengi en var mikið á spítala. Ég kvaddi hana oft, en alltaf reis hún upp aftur,“ útskýrir Ragnheiður.

„Ég á tvær eldri systur, sem eru mér samfeðra, en svo á ég einn yngri bróður, sammæðra, sem ég gekk dálítið í móðurstað á þessum árum. Svo þegar mamma var farin þá flutti hann til móðursystur minnar en ég flutti til pabba. Við höfðum alltaf verið í sambandi en ég hafði aldrei búið hjá honum.“ „Ég fór því úr því að búa við þröngan kost í kjallara í Garðabæ yfir í einbýlishús í Þingholtunum hjá pabba. Það voru mikil viðbrigði,“ rifjar Ragnheiður upp.

„Ég bjó um tíma í Noregi sem krakki og líka úti á landi svo það hafði aldrei verið mikill samgangur okkar á milli. Ég man að fyrst rifumst við eins og hundur og köttur en urðum fljótlega perluvinir. Hann lést árið 2006, en þá var ég komin vel af stað í lyfjafræðinni,“ segir hún, og dugnaðurinn skín úr augum hennar.



RagnheiðurFréttablaðið/Valli
Ætlaði bara að koma sér í form

Systir Ragnheiðar, Solveig, plataði hana á hennar fyrstu æfingu í kraftlyftingum hjá kraftlyftingaþjálfaranum Ingimundi Björgvinssyni í Gróttu.

„Ég var nýbúin að eiga á þessum tíma, í janúar 2012, og mig langaði að koma mér í form. Það er barnapössun í World Class á Nesinu þannig að ég hugsaði með mér að ég kæmi í þetta með Sollu í svona mánuð, kannski tvo,“ útskýrir Ragnheiður.

„Áður en ég vissi af var ég komin á fullt í kraftlyftingar og farin að keppa. Ég ætlaði alls ekki að feta þessa braut og þaðan af síður að keppa í þessu. En Ingimundur plataði mig til að taka þátt í einu móti. Hann sagði við mig að þetta væri góð leið til að koma sér í form, hafa eitthvað til að stefna að og setja sér markmið. Mér fannst, held ég, erfiðast í þessu í byrjun að stíga svona langt út fyrir þægindarammann.“

Búnaðurinn ekki sexí

„Búnaðurinn sem maður klæðist er ekkert rosalega sexí,“ segir Ragnheiður og hlær.

„En svo um leið og ég tók þátt í mínu fyrsta móti, þar sem ég stóð mig raunar alls ekki vel, sá ég hvað þetta var hrikalega skemmtilegt. Ég held að ég hafi nánast keppt á öllum mótum sem í boði hafa verið síðan.“

Ragnheiður æfir fjórum sinnum í viku, 2-3 tíma í senn, og hugar vel að mataræðinu.

„Fyrst um sinn skilaði ég inn matardagbók til þjálfara. Svo þurfti ég þess bara ekkert lengur. Ég veit hvað ég þarf að borða til þess að mér líði vel og ég þarf að borða nóg. Ef ég er að búa mig undir mót er það talsvert öðru vísi. Þá huga ég enn betur að mataræðinu og æfi frekar stíft, en passa alltaf að hvíla inn á milli.“

Er á heimslista eftir sigurinn

Eftir að Ragnheiður vann Norðurlandameistaramótið suður í Njarðvík er hún komin á svokallaðan heimslista.

„Þetta er alþjóðlegt mót og nú hef ég möguleika á að fara út að keppa í framhaldinu. Ég stefni klárlega á Evrópumeistaramótið á næsta ári.“ Aðspurð segist Ragnheiður ekki vera í þessu peninganna vegna.

„Það eru ekki peningar í þessu sporti, því miður,“ segir hún og hlær.

„En konur eru að uppgötva hversu frábær íþrótt kraftlyftingar eru til að koma sér í gott form. Flestar bestu kraftlyftingakonur í heiminum eru nettar og í mjög góðu formi. Lykilatriði í kraftlyftingum er góð tækni. Hugurinn þarf að vera 100% með í æfingunum og maður getur ekki verið að hugsa um neitt annað á meðan sem er mikill kostur við þessa íþrótt. Maður er bæði að huga að líkamlegri heilsu og geðheilsunni á sama tíma. Ég set í algjöran forgang að mæta á æfingar og ég hlakka alltaf til þeirra. Og ekki skemmir félagsskapurinn fyrir en ég er að æfa í hóp með þremur frábærum konum,“ segir Ragnheiður að lokum.

Ragga í svokölluðum „fullum búnaði“Mynd frá www.wodbud.is
Hvað eru kraftlyftingar?

Kraftlyftingar eru íþrótt þar sem keppt er í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu og ræður samanlagður þyngdaárangur keppnisröð keppenda. 

Þá telst það einnig til kraftlyftinga þegar keppt er í einstakri sérgrein þeirra á landsmóti eða alþjóðlegu móti. 

Mótin eru milli keppenda í flokkum, sem aðgreindir eru eftir kyni, líkamsþunga eða aldri. 

Sérhver keppandi fær þrjár tilraunir í hverri grein. 

Besta gilda lyfta keppanda í hverri grein myndar samtölu, sem er samanlagður árangur hans. Ef tveir eða fleiri keppendur ná sama samanlögðum árangri, þá raðast sá léttari framar hinum þyngri. 

Nái tveir keppendur jafn þungir við vigtun sama árangri í samanlögðu, þá sigrar sá sem fyrst nær samtölunni.

Hægt er að keppa í tvenns konar kraftlyftingum, klassískum kraftlyftingum og kraftlyftingum með búnaði. Klassískar kraftlyftingar eru kraftlyftingar án búnaðar, það er hnébeygjubrókar, réttstöðulyftubrókar, bekkpressubols og hnévafninga. Aftur á móti má nota hnéhlífar, úlnliðsvafninga og keppnisbelti í báðum tegundum kraftlyftinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×