Lífið

Sparidagar á Hótel Örk við lýði í aldarfjórðung

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Dagskráin verður sambland af fræðslu, afþreyingu og skemmtun,“ segir Jakob sem hefur verið hótelstjóri á Örkinni í tíu ár.
„Dagskráin verður sambland af fræðslu, afþreyingu og skemmtun,“ segir Jakob sem hefur verið hótelstjóri á Örkinni í tíu ár. Mynd/Dakri Irene Husted
„Líklega er leitun að skemmtidagskrá á Íslandi sem hefur verið í boði jafn lengi,“ segir Jakob Arnarson, hótelstjóri á Hótel Örk í Hveragerði, um sparidaga hótelsins. Þeir eru haldnir fyrir eldri borgara og hafa verið fastur liður á hverjum vetri frá árinu 1990 þegar Jón Ragnarsson var þar hótelstjóri.

Jakob segir ýmsa skemmtanastjóra hafa komið að sparidögum í gegnum tíðina og nefnir Helga Seljan, afa fréttamannsins, Hermann Ragnar Stefánsson, Sigurð Guðmundsson, Guðrúnu Nielsen, Árna Norðfjörð og Unni Arngrímsdóttur.

„Undanfarin fimmtán ár hefur Gunnar Þorláksson danskennari séð um þessa daga, það er sá sami og er með Komið og dansið í Asparfellinu í Reykjavík. Dagarnir hafa verið dálítið tengdir dansinum í gegnum árin en áherslan á hann hefur samt aðeins minnkað. Við erum meira með þemakvöld núna, Bítlakvöld, kántríkvöld og önnur slík en það er alltaf dansað.“

Spurður hvort meira verði haft við í ár en endranær vegna afmælisins svarar Jakob:

„Við bjóðum fólki í hestaleikhúsið í Fákaseli í Ölfusi og leggjum aðeins meira í dagskrána en við höfum gert.“ Hann nefnir sætaferð í Landgræðsluna í Gunnarsholti sem fólk hefur val um að fara í fyrir 1.600 krónur og að Siggi Sigurjóns ætli að leika hið kostulega leikrit Afann á Örkinni.

Innifalið í verði er morgunverður og þriggja rétta kvöldmáltíð og skemmtileg kvölddagskrá verður á sínum stað að sögn Jakobs.

„Níels Árni Lund sér um stjórnina á sparidögum núna og verður með Hauk Ingibergsson tónlistarmann og marga aðra góða gesti sér til halds og trausts. Jóhannes Kristjánsson eftirherma kemur eitt kvöldið, Guðríður Helgadóttir verður með fróðleik um garðrækt einn daginn og fleiri gestafyrirlesarar koma. Dagskráin verður sambland af fræðslu, afþreyingu og skemmtun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×