Innlent

Spáin ræður för Íslendinganna

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Það getur verið skynsamlegt að láta veðurspá vísa veginn en það getur líka orðið til þess að Halldór sitji einn í blíðunni fyrir vestan.
Það getur verið skynsamlegt að láta veðurspá vísa veginn en það getur líka orðið til þess að Halldór sitji einn í blíðunni fyrir vestan. Fréttablaðið/Vilhelm
Halldór Hafdal Halldórsson, skálavörður í Hornbjargsvita í Látravík, segir íslenska ferðamenn láta ferðaáætlun sína að miklu leyti ráðast af veðurspám.

Það er oft talið skynsamlegt að bera sig að líkt og heimamenn gera en svo er hægt að brenna sig á því eins og dæmin sanna. „Ef það spáir illu þá afbóka íslensku ferðamennirnir,“ segir hann.

„Það var til dæmis nær alveg tómt hjá mér síðustu tvo daga út af svona afbókunum en veðrið hefur sjaldan verið betra. Ég ætlaði að fara að mála en það var alltof heitt til að standa í því.“

Hornbjargsviti Af síðustu fjórum árum hefur Majorkablíða einkennt tvö þeirra. Fréttablaðið/Vilhelm
Að öðru leyti segir hann ekki mikinn mun á íslensku og erlendu gestunum nema kannski að þeir íslensku geri betur við sig þar vestra meðan þeir erlendu komi aðeins með allra nauðsynlegustu vistir.

Þetta er fjórða sumarið sem Halldór hefur umsjá með vitanum og ýmislegt hefur breyst á þessum tíma. „Fyrstu tvö sumrin voru ein Majorkablíða, 27 stig, dag eftir dag en þau tvö síðustu hafa verið nokkuð blaut,“ segir hann. Hann unir hag sínum vel í sumarvinnunni en vetursetu hefur hann í Kópavogi.

Þegar hann er spurður hvort enn votti fyrir anda og ummerkjum hins fræga vitavarðar Óla komma, Ólafs Þ. Jónssonar, þá stendur ekki á svari. „Vitaskuld,“ segir hann, „meira að segja stjarnan hans er enn uppi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×