Innlent

Spá rólegu veðri um jólin

Samúel Karl Ólason skrifar
Samkvæmt spádeild Veðurstofu Íslands er von á hinu rólegasta og fínasta veðri fyrir jólin.
Samkvæmt spádeild Veðurstofu Íslands er von á hinu rólegasta og fínasta veðri fyrir jólin. Vísir/Vilhelm
Hálka er á Hellisheiði og Þrengslum en hálkublettir eru á Sandskeiði. Mjög víða á Suðurlandi er hálka. Á Vesturlandi er hálka og snjóþekja á flestum vegum. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Klettsháls og á Hálfdán. Flughálka er í kringum Hólmavík og í vestanverðum Hrútafirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Öxnadalsheiði hefur verið opnuð en þar er þæfingsfærð og enn er verið að hreinsa. Flughálka er í Köldukinn  og við Vopnafjörð. Snjóþekja og skafrenningur er á Vatnskarði en þæfingur og skafrenningur á Þverárfjalli. Snjóþekja eða hálka og éljagangur er annars mjög víða á Norðurlandi.

Samkvæmt spádeild Veðurstofu Íslands er von á hinu rólegasta og fínasta veðri fyrir jólin. „Það mun væntanlega vera kærkomin hvíld fyrir landann miðað við það sem gekk á í desember,“ segir vakthafandi veðurfræðingur í samtali við Vísi.

Um mest allt land verður rólegt og kalt, en von er á einhverri snjókomu. „Flestir ættu að fá nokkuð jólalegan snjó í þessum hæga vindi.“

Þegar nær dregur áramótum gæti orðið viðsnúningur á veðrinu. Vindurinn gæti snúið sér í sunnanátt með hlýindum, rigningu og hláku. Þó er um langtímaspá að ræða sem gæti breyst.

Hægt er að fylgjast með færð á vef Vegagerðarinnar og veðri á vef Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×