Innlent

Sóley Tómasdóttir flýgur á milli landa til að sækja fundi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi VG og forseti borgarstjórnar segist ætla að standa sína plikt.
Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi VG og forseti borgarstjórnar segist ætla að standa sína plikt. Visir/Anton
„Ég mun standa mína plikt þangað til ég fer. Það eru mjög fáir borgarfulltrúar sem hafa mætt jafn vel og ég á þá fundi sem þeim ber að mæta á,“ segir Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, sem mun láta af störfum tuttugasta september næstkomandi þegar hún flytur til Hollands.

Sóley mun þangað til fljúga á milli landa til að sækja fundi. „Það verða kannski einhverjar afleysingar í borgarráði og ég hefði viljað kjósa Líf Magneudóttur inn í borgarráð fyrir mig en það er víst ekki hægt. Að öðru leyti mun ég sinna mínum störfum,“ segir Sóley.

Hún segist þó þurfa að klára ákveðin mál áður en hún fer. „Svo sem eins og afgreiðslu á frístundastefnu sem hefur verið unnin núna á undanförnum tveimur árum. Við klárum hana í borgarstjórn áður en ég hætti,“ segir Sóley.



Líf Magneudóttir, varaborgarfulltrúi.


Líf Magneudóttir mun koma til með að leysa Sóleyju af í borgarráði og taka sæti hennar í borgarstjórn þegar þar að kemur. „Þetta er vissulega dálítið púsluspil fyrir okkur en við ráðum náttúrulega fram úr því eins og best verður á kosið. Að öðru leyti þarf hún að svara fyrir það hvernig hún háttar sínum starfslokum,“ segir Líf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×