Lífið

Snýst ekki bara um að fjölga konum

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Heiða Kristín Helgadóttir var búin að stilla sig inn á að verða þingmaður síðasta vor og viðurkennir að það hafi verið vonbrigði að komast ekki inn á þing. Hún segir pólitíkina vera leikrit og mikið um harðan og forskrúfaðan kraft sem þarf að breyta.
Heiða Kristín Helgadóttir var búin að stilla sig inn á að verða þingmaður síðasta vor og viðurkennir að það hafi verið vonbrigði að komast ekki inn á þing. Hún segir pólitíkina vera leikrit og mikið um harðan og forskrúfaðan kraft sem þarf að breyta. Vísir/Vilhelm
Heiða Kristín velur Kaffivagninn sem vettvang fyrir viðtalið sem fer fram með útsýni yfir Reykjavíkurhöfn á blautum vordegi. Hún er lítið sofin enda kosningabarátta í fullum gangi og Heiða í eldlínunni. Hún er aðalsprautan hjá Bjartri framtíð sem býður í fyrsta sinn fram til sveitarstjórnarkosninga í vor.

Heiða Kristín skaust fram á sjónarsviðið fyrir fjórum árum, þá aðstoðarkona Jóns Gnarr. Besti flokkurinn kom eins og stormsveipur inn í íslenska stjórnmálaheiminn, en Heiða tók þátt í að búa til Besta flokkinn og síðar Bjarta framtíð sem, líkt og Heiða, hafa notið mikillar velgengni þrátt fyrir ungan aldur.

„Ég ætlaði aldrei í pólitík, eða mér fannst landslagið ekki heillandi eins og það var þá. Svo var ég kynnt fyrir Jóni fyrir fjórum árum af sameiginlegum vini okkar. Það má eiginlega segja að ég hafi verið sótt inn í þetta dæmi því ég hafði eitthvert lágmarksvit á þessu, enda stjórnmálafræðingur að mennt. Við urðum sammála um að okkur langaði til að láta á þetta reyna og úr varð Besti flokkurinn og síðar Björt framtíð,“ segir Heiða Kristín sem ber titlana stjórnarformaður Bjartrar framtíðar og fyrsti varaþingmaður í Reykjavík norður.



Heiða Kristín Helgadóttir stjórnmálafræðingur
Pólitík er leikrit

Heiða Kristín er sú sem ber ábyrgð á innra starfi BF og í heilt ár hefur hún unnið að framboðum til sveitarstjórna um allt land. Margir hafa velt vöngum yfir því af hverju Heiða, sem hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu á síðustu árum, hefur ekki vermt oddvitasæti eða að minnsta kosti verið í efstu sætum á listum.

Heiða ákvað að taka annað sæti á lista Bjartrar framtíðar í Reykjavík norður í alþingiskosningunum í fyrra.

 

„Ég var þingmaður þegar ég sofnaði um sexleytið um morguninn á kosninganótt, samt var eitthvað inni í mér sem sagði mér að hafa fyrirvara á þessu. Þegar ég vaknaði daginn eftir sá ég falleg skilaboð á símanum mínum frá Óttari Proppé og fattaði að ég væri ekki alþingismaður. Auðvitað var það svekkjandi og vonbrigði, ég var búin að stilla mig inn á þetta og sjá þetta fyrir mér í hringiðunni. En svo þurfti ég að fara til baka ofan í það sem ég hafði ákveðið á sínum tíma og fann að það var hárrétt ákvörðun hjá mér að taka annað sætið,“ segir Heiða sem síðar fann fyrir pressu að fara fram í sveitarstjórnarkosningunum í vor undir merkjum BF, þá í oddvitasætinu.

 

„Við vorum allt síðasta sumar að hugsa hlutina upp á nýtt eftir alþingiskosningar, hvert væri næsta skref og hvað tæki við. Þá var ljóst að Jón ætlaði ekki að halda áfram og við þurftum að taka ákvörðun um hvað yrði um Besta flokkinn og svo framvegis. Ég ætlaði mér að taka sæti á lista í borginni en eftir mikla íhugun fann ég það hjá sjálfri mér að mig langaði ekki að taka það skref strax. Mér líður mjög vel með það hlutverk sem ég hef í dag. Pólitík er leikrit sem lætur fólk halda að það sé einhver einn leiðtogi sem leiðir flokkinn. Þannig er það ekki, þetta er fullt af fólki sem kemur saman. Ég veit að ég er leiðtogi í hópnum en fleiri eru það líka, sem er mjög mikilvægt. Þó ég sé ekki í fyrsta sæti hef ég mjög mikil áhrif á það hvernig Björt framtíð er að þróast og hvaða áherslur flokkurinn leggur. Mér finnst mikilvægt að halda þessu til haga því það er ekki rétt að áhrifin komi bara með sætum. Það er mjög stórt verkefni að halda flokknum lifandi og í samræmi við sjálfan sig og það er mitt hlutverk í dag. Stjórnmálaumhverfið hentar mér mjög vel, ég er þannig að ég þarf á tilbreytingunni að halda, þarf reglulega að stokka upp og vera með fjölbreyttan vinnudag.“

Heiðu Kristínu er mikið í mun að rétta kynjahallann í stjórnmálum, fá inn „meiri mjúkan kraft á móti þessum harða krafti sem er nóg af í samkeppnisumhverfi stjórnmálanna“ eins og hún orðar það sjálf. Hún hefur lagt áherslu á að finna konur á lista BF víðs vegar um landið.

„Þetta snýst ekki bara um að fjölga konum, þó það sé mjög mikilvægt, heldur snýst þetta líka um að takast á við þennan harða og forskrúfaða kraft sem við höfum öll í okkur og reyna að efla frekar þennan lausnamiðaða og mýkri kraft í samskiptum við aðra. Sjá fleiri hliðar og muna að lífið er ekki svarthvítt og þar af leiðandi stjórnmál ekki heldur.“

Ung mamma en gömul sál

Heiða Kristín er nýorðin 31 árs, fædd í Washington, uppalin í Hlíðunum og því Valsari sem núna heldur með KR og öskrar sig hása á hliðarlínunni í Frostaskjólinu. Hún hefur sest að í Vesturbænum og strákarnir hennar eru átta og fimm ára, annar þeirra er kominn í KR. 

„Það er mjög fyndið að fylgjast með þeim lifa sig inn í eitthvað sem ég hef nákvæmlega ekkert vit á eins og fótbolta. Ég er nákvæmlega engin íþróttamanneskja. Þeir geta logið mig fulla af alls konar upplýsingum um íþróttina sem ég gleypi við,“ segir Heiða Kristín og hlær. 

Hún varð ung mamma, orðin tveggja barna móðir fyrir tuttugu og fimm, sem er á skjön við þróun í barneignum undanfarin ár. 

„Rökrétt skref eftir menntaskóla hjá mér var að fara að eignast börn. Sem er mjög fyndið því það er langt frá því eins og mér líður í dag. Ég var búin að vera með þáverandi kærasta mínum lengi og á allt öðrum stað í allt annarri tengingu – svo uxum við bara í sundur eins og gengur og gerist. Auðvitað var erfitt að slíta sambandi en það var lífsreynsla sem gerði mig sterkari. Ég lærði heilan helling og ég lít þannig á þetta gagnvart strákunum mínum að núna eru komnir inn í líf þeirra tveir nýir, frábærir einstaklingar sem við pabbi þeirra erum hamingjusöm með. Þannig að í stað þess að þeir eigi foreldra sem eru saman en líður kannski ekki nógu vel saman, þá eru fjórir einstaklingar með fókus á þá og vilja allt fyrir þá gera.“

Heiða Kristín segist hafa fæðst miðaldra og oftast verið á öðrum stað en jafnaldrar sínir. Fyrir þrítugt var hún búin að eignast tvö börn, orðin einstæð móðir og stofna tvo stjórnmálaflokka. Sem unglingi fannst henni hallærislegt að hanga úti í sjoppu með bakpoka fullan af landa og reykja.

„Ég var í raun leiðindapúki sem unglingur, ég var langt frá því að vera slök. Hafði mikinn metnað og var frekar erfið. Það var ekkert vesen á mér, byrjaði seint að drekka og hafði alltaf óbeit á áfengi. Síðasta haust ákvað ég að taka áfengi algjörlega út úr mínu lífi. Ég er stöðugt að reyna að finna betri tengingu við sjálfa mig og taka stórar og erfiðar ákvarðanir. Áfengi ruglar þessa tengingu og mig langar aldrei að vera ekki í tengingu við mig eða það sem ég er að gera á hverjum tíma.“

Heiða hóf sinn stjórnamálaferil sem aðstoðarkona Jóns Gnarr.
Laglaus með öllu

Heiða er úr mikilli tónlistarfjölskyldu, faðir hennar er hinn þjóðþekkti þjóðlagasöngvari og fjölmiðlamaður Helgi Pétursson og bróðir hennar, tónlistarmaðurinn Snorri Helgason. Sjálf grínast hún með að æska sín hafi verið nákvæmlega eins og Sound of Music mínus nasistarnir. Það liggur því beinast við að spyrja hvar tónlistarhæfileikar hennar liggi. 

„Ég fékk ekkert af þessum genum, því miður. Mjög sorgleg staðreynd. Ég segi kannski ekki að ég sé taktlaus en ég er laglaus. Alveg vonlaus. Æfði í nokkur ár á píanó en lengra náði minn tónlistarferill ekki. En það var allt í lagi og engin pressa frá fjölskyldunni, það var ekki svoleiðis að við ættum öll að verða þjóðlagasöngvarar, sem betur fer,“ segir Heiða Kristín hlæjandi. 

Heiða er nýtrúlofuð og ástfangin upp fyrir haus. Unnusti hennar heitir Guðmundur Kristján Jónsson og er að læra borgarskipulagsfræði í Kanada. Þangað er stefnan tekin hjá Heiðu og sonum hennar beint eftir kosningar í sumar.

„Ég er mjög spennt að prófa að búa í Kanada í sumar. Ég ætla að vera þar og njóta þess að vera í fríi og koma svo aftur fjórefld og halda áfram að byggja upp Bjarta framtíð, sjálfa mig og ástina.“

En hvar sér Heiða sig fyrir sér eftir 10 ár? „Það er erfitt að segja. Ég hef ekki hugmynd, vonandi bara eins hamingjusama og ég er í dag og að takast á við einhverjar nýjar áskoranir og vinna stóra og litla sigra með Gumma, manninum mínum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×