Lífið

Snoðar sig ef næst að safna tveimur milljónum

Guðný Hrönn skrifar
Áhugasamir geta fylgst með Ernu á ernuland á Snapchat.
Áhugasamir geta fylgst með Ernu á ernuland á Snapchat.
Fyrir fjórum árum ákvað Erna Krist ín að raka af sér allt hárið til styrktar bágstöddum börnum í Kenía. Verkefnið gekk vel og hún náði að safna rúmum 600.000 krónum. Erna er komin með síða hárið sitt aftur en það fær líka að fjúka á næstunni, núna til styrktar börnum í Nígeríu.

„Ég náði þessum rúmu 600.000 krónum sem einhver lilla á Selfossi, þannig að ég fór að hugsa um upphæðina sem ég gæti þá náð núna, þegar tengslanetið er orðið mun stærra,“ útskýrir Erna sem hefur vakið töluverða athygli fyrir hönnun sína, pistla og á Snapchat.

Erna hafði hugsað sér að gera eitthvað annað en að raka af sér hárið í þetta sinn. „Ég leitaði að nýjum hugmyndum en þegar upp er staðið þá veit ég bara hversu mikla athygli þetta vekur. Og ég held að þetta verði meira áberandi núna, þar sem ég er að gera þetta í annað sinn,“ segir Erna sem stefnir á að ná tveimur milljónum innan ákveðins tímaramma.

Erna hefur áður snoðað sig.
„Við erum ekki komin með neitt ákveðið „deadline“ en ef takmarkið næst þá fer hárið af og allir geta fengið að fylgjast með, hvort sem það verður í gegnum Snapchat eða eitthvað annað. Ég er vongóð um að markmiðið náist.“ Eins og áður sagði mun upphæð- in renna til barna í Nígeríu.

„Það deyja um 200 ungbörn á dag vegna næringarskorts. Og þessi upphæð sem við erum að stefna á getur bjargað rúmlega 200 börnum, svo þau geti lifað áfram. Þetta er mjög öfgakennt ástand. Mér finnst ég bera ábyrgð, ég veit ég get gert eitthvað og þá finnst mér fáránlegt að gera það ekki.“ 

Erna hefur mikla ástríðu fyrir góðgerðarmálum og finnst mikilvægt að leggja sitt af mörkum. Hún segir hafa verið erfitt að velja málefni til að styrkja. „Já, rosalega erfitt. En við völdum þetta í sameiningu, við Unicef. Þau verða mínar klappstýrur á hliðarlínunni. Miðað við hvað aðrir segja þá púllaði ég þetta bara ágætlega,“ segir Erna og hlær aðspurð hvernig henni hafi fundist að vera snoðuð á sínum tíma.

„Þetta var þægilegt en ég man að ég fór á svona tímabil þar sem mér fannst ég ekki vera ég sjálf. Þetta er alveg erfitt og ég finn alveg fyrir smá stressi núna. En þetta var gaman líka. Það besta var þó að gefa þessa gjöf, því fylgdi einhver ný tilfinning sem ég hafði aldrei fundið fyrir áður. Þetta var alveg magnað,“ segir Erna.

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta sent SMS-ið BARN í númerið 1900 og gefið þannig 1.000 krónur í söfnunina. Þá er einnig hægt að styrkja með því að leggja inn á reikninginn 701-26-102050 (kt. 481203-2950).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×