Innlent

Smáríkin eru ekki fullkomlega áhrifalaus

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Lukas og Nicole. Smáríki hafa meiri tækifæri til áhrifa en marga grunar.
Lukas og Nicole. Smáríki hafa meiri tækifæri til áhrifa en marga grunar. Fréttablaðið/Andri Marinó
„Ég komst að því að það væri rannsóknasetur um smáríki hér í Reykjavík og sótti strax um að komast í skólann,“ segir Lukas Beraki, nemandi við sumarskóla Rannsóknaseturs um smáríki.

„Ég hef áður stundað nám í alþjóðasamskiptum í háskólanum mínum í Kaupmannahöfn. En ég komst að því að í nær öllum stóru kenningunum og öllu sem við lærum í alþjóðasamskiptum er ekkert fjallað um tilveru smáríkja í alþjóðasamfélaginu,“ segir Lukas.

Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands stóð fyrir sumarskóla um smáríki og stöðu þeirra þann 22. júní til 4. júlí. Fjöldi nemenda frá sex háskólum í Evrópu tók þátt í skólanum.

„Smáríkin eru allt of lítið rannsökuð, sem er undarlegt til dæmis fyrir heimaland mitt Danmörku sem er smáríki. Það væri mjög gagnlegt fyrir Danmörku ef meiri áhersla væri á tækifæri og áskoranir smáríkja,“ segir hann.

„Smáríki hafa í raun mörg tækifæri ólíkt því sem margir halda,“ segir Nicole Tabone, annar nemandi við skólann.

„Lykillinn er að nýta styrkleika þína á réttan hátt til að hámarka frammistöðu þína. Efnahagshrunið og enduruppbyggingin á Íslandi er til dæmis gott dæmi um það hvernig smáríki geta nýtt stærð sína til að ná merkilegum árangri. Í dag stendur Ísland í lappirnar,“ segir hún.

Nicole, sem er frá Möltu, segir mikil líkindi með Íslendingum og Maltverjum þó að veðrið sé frábrugðið. Fyndnustu líkindin þykja henni vera að bæði Ísland og Malta hafa sent þingmenn í Eurovision.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×