Innlent

Slösuðust við að smygla sér inn á Sálarball

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá Grundarfirði.
Frá Grundarfirði. vísir/vilhelm
Um helgina fór fram bæjarhátíðin Á góðri stund í Grundarfirði. Boðið var upp á ýmis konar skemmtidagskrá auk balls þegar sól fór að lækka á lofti. Útlit er fyrir að hátíðin hafi farið vel fram utan minniháttar óhappa.

„Enn sem komið er þá er ekkert annað sem bendir til þess en að hátíðin hafi farið vel fram,“ segir Theodór Þórðarson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, við Vísi. „Það voru einhverjar minniháttar stimpingar á ballinu en það er varla í frásögur færandi.“

Á Sálarballinu voru um fimmhundruð manns samankomnir en talsvert fleiri tóku þátt í skemmtidagskránni fyrr um kvöldið. Að mati Theodórs voru ríflega þúsund gestir samankomnir í bænum.

Samkvæmt heimildum Vísis slasaðist ungur maður þegar hann ætlaði að spara sér aðgöngumiðann á dansleikinn. Reyndi hann að smygla sér inn með því að stökkva yfir girðingu en slasaði sig þegar hún gaf sig.

„Það var par sem reyndi að klifra yfir járngrind en lentu undir henni þegar hún gaf sig. Hann slasaðist meir en hún og jafnvel talið að um fótbrot hafi verið að ræða,“ segir Theodór. Hann vissi hins vegar ekki í hvaða tilgangi fólkið hafði ætlað að príla yfir girðinguna.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir við ölvun við akstur auk þess sem að upp komst um örfá minniháttar fíkniefnabrot. Þau brot hafi hins vegar verið í algjöru lágmarki að sögn yfirlögregluþjónsins. Engar líkamsárásir voru kærðar eftir hátíðina.

„Hér var fólk bara samankomið til að gleðjast,“ segir Theodór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×