Lífið

Slegist um Keith Richards

Óskar Guðnason kemur fram í Hörpu um helgina.
Óskar Guðnason kemur fram í Hörpu um helgina. Vísir/anton
„Þetta er svona þjóðlagatónlist, ballöður við róleg og falleg ástarljóð,“ segir listamaðurinn Óskar Guðnason en hann kemur fram á tónleikum í Munnhörpunni á laugardag, ásamt Þórdísi Sævarsdóttur söngkonu og Ingólfi Steinssyni gítar- og munnhörpuleikara og söngvara. Leikin verða lög af plötunni Fögur er jörðin sem kom út á síðasta ári.

Óskari er margt til lista lagt og er hann einnig sjálflærður myndlistarmaður, en hann er náfrændi Svavars Guðnasonar sem var einn af helstu íslensku málurunum á síðustu öld. „Ég hef mikið verið að mála tónlistarmenn, það er til slatti af verkum sem ég hef selt. Ég hef líka verið að mála abstrakt en það fer þó enginn í spor Svavars, ég fékk að horfa á þessi listaverk þegar ég var í pössun hjá ömmu og varð strax hrifinn af þeim,“ segir Óskar.

En hvort er nú skemmtilegra að búa til tónlist eða mála málverk? „Þegar ég er í feikilega góðu stuði er gaman að spila tónlist með öðrum en ef ég þarf að vera einn með sjálfum mér finnst mér gott að sletta litum eins og ég get,“ segir Óskar.

Hornfirðingar slógust um þetta meistarastykki.
Hann hefur málað tónlistarmenn á borð við Jimi Hendrix, Eric Clapton, Elvis Presley og Keith Richards en málverk af þeim síðastnefnda vakti mikla lukku á sýningu á Hornafirði í sumar. „Það kom fljótlega fyrirspurn og boð í verkið upp á 100.000 krónur en ekki leið á löngu þangað til annar hafði samband og bauð 120.000 krónur. Þá hringdi þriðji maðurinn fljótlega og bauð 132.000 krónur og eftir samræður við alla bjóðendurna endaði verkið á að seljast manninum, sem bauð síðast, á 132.000 krónur, sem er náttúrulega ekki neitt miðað við svona listaverk,“ útskýrir Óskar.

Óskar ætlar að einblína á tónlistina um helgina og hann heldur tónleika eins og fyrr segir í Munnhörpunni og hefjast þeir klukkan 15.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×