Innlent

Slapp líklega af mannavöldum

Sveinn Arnarsson skrifar
Fiskeldi er orðinn stór atvinnugrein á Vestfjörðum. Hér sjást kvíar í Patreksfirði.
Fiskeldi er orðinn stór atvinnugrein á Vestfjörðum. Hér sjást kvíar í Patreksfirði. vísir/pjetur
Matvælastofnun hefur rökstuddan grun um hvaðan regnbogasilungur slapp úr kvíum síðastliðið sumar með þeim afleiðingum að hann veiddist í ám á stóru svæði. Stofnunin horfir til Vestfjarða og telur að regnbogasilungurinn hafi ekki sloppið í gegnum göt á netum kvía.

Í sumar varð vart regnbogasilungs í öllum ám á Vestfjörðum en einnig á Norðurlandi vestra og í Eyjafirði svo dæmi séu tekin. Ljóst er að slysasleppingar á regnbogasilungi urðu þrjár á síðasta sumri.

„Við höfum grun um hvaðan fiskurinn sem veiddist í sumar er ættaður en bíðum slátrunar úr kvíum til að fá haldbærari niðurstöður,“ segir Soffía Katrín Magnúsdóttir, eftirlitsmaður Matvælastofnunar með búnaði og kvíum eldisfyrirtækja. „Málið er enn til rannsóknar hjá okkur og við bíðum átekta eftir því að fyrirtæki slátri fiski. Þá getum við séð hvort afföll séu einhvers staðar í kvíum.“

Frá því regnbogasilungur fór að veiðast í nánast öllum ám á Vestfjörðum hefur Matvælastofnun verið með málið á sinni könnu auk Fiskistofu. Matvælastofnun hefur eftirlit með búnaði fyrirtækjanna en hefur ekki kannað kvíar með köfun allan þennan tíma og gert á þeim óháða rannsókn. „Við köfum ekki til að skoða kvíar. Fyrirtækin ráða sjálf kafara til að skoða sínar kvíar,“ segir Soffía Katrín.

Matavælastofnun telur ennfremur ósennilegt að fiskurinn hafi sloppið í gegnum göt á kvíum. Ef stór göt væru á kvíum regnbogasilungs telur Matvælastofnun nær öruggt að það kæmi fram þegar kafarar kanna kvíarnar. „Við teljum frekar að einhvers konar handvömm starfsmanna hafi verið valdur þess að regnbogi slapp í sumar,“ segir Soffía Katrín.

Fyrirtæki á Vestfjörðum, sem ala regnbogasilung, sem Fréttablaðið náði tali af í gær segja það hins vegar af og frá að fiskur þeirra hafi sloppið í sumar. Gunnvör í Hnífsdal hafi til að mynda slátrað um 280 tonnum af regnbogasilungi í haust og engin afföll hafi verið hjá þeim. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×