Innlent

Skrifuðum geisladiskum stolið frá Andreu Jónsdóttur

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Andrea Jónsdóttir saknar bakpokans síns þar sem verk hennar liggja.
Andrea Jónsdóttir saknar bakpokans síns þar sem verk hennar liggja. Mynd/Aðsend
Bakpoki með nokkur hundruð skrifuðum geisladiskum, í eigu rokkömmu Íslands, Andreu Jónsdóttur, hvarf af skemmtistaðnum Dillon snemma á nýja árinu og syrgir Andrea pokann mjög. Í pokanum voru fjórar geisladiskamöppur með þúsundum laga sem Andrea hefur verið dugleg að nota við að þeyta skífum og var pokinn langt frá því að vera léttur og meðfærilegur.

„Þetta er ekki fjárhagslegt tjón en tilfinningalegt og er alveg rosaleg óþægindi,“ segir Andrea en hún deildi upplifun sinni á Facebook og vonar að máttur samfélagsmiðilsins verði til þess að pokanum verði skilað aftur á réttan stað. „Ég er svo gamaldags að ég skrifa mína diska sjálf. Sit bara heima og tek bestu lögin frá hljómsveitum og set á einn disk. Mesti skaðinn er að ein mappa er með safndiskum frá alls konar tímabilum og tónlistarstefnum. Ég get nefnilega spilað víðar en á Dillon,“ segir hún og hlær.

Andrea er ein reyndasta útvarpskona landsins og hefur spilað tónlist um árabil um helgar á Dillon.

Í pokanum eru þrjár stórar möppur, ein hvít, önnur gul og sú þriðja rauð, en allar eru af sömu tegund. Sú fjórða er minni, svört og þykk. „Ég var að vona að einhver myndi skila þessu fljótlega en það hefur ekki gerst, því miður. Þetta eru ekki verðmæti fyrir neinn nema mig, nema viðkomandi ætli að fara þeyta skífum með geisladiskum. Ég vona bara að diskunum hafi ekki verið fleygt og trúi að ég fái þá aftur,“ segir Andrea. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×