Innlent

Skriður kominn á samningaviðræður sjómanna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Í kringum eitt hundrað sjómenn komu saman við Karphúsið klukkan 13.
Í kringum eitt hundrað sjómenn komu saman við Karphúsið klukkan 13. vísir/stefán
Sjómenn sætta sig ekki við kjararýrnun og vilja fá sjómannaafsláttinn sinn til baka. Þeir mættu fyrir utan Karphúsið í dag til að sýna samninganefnd sinni samstöðu. Skriður virðist vera að komast á samningaviðræður þeirra og útgerðarmanna.

Tugir sjómanna söfnuðust saman við Karphúsið rétt eftir hádegi á meðan að samninganefnd þeirra og útgerðarmanna funduðu þar inni. Tæpar fjórar vikur eru nú frá því að sjómenn fóru í verkfall.

„Við viljum fá samning og við viljum fá hann bara sem fyrst,“ segir Eiríkur Gíslason sjómaður. Sjómenn segjast ósáttir við kjör sín. Þeir leggja áherslu á að fá aftur sjómannaafsláttinn.

Fundur samninganefndanna stóð í um tvo tíma og ríkti nokkur bjartsýni meðal samninganefndarmanna eftir fundinn. „Þetta var bara góður fundur og menn skiptust á skoðunum og ræddu málin hreinskilnislega og þetta var bara fínn fundur. Það er búið að ákveða að boða fund aftur klukkan eitt á morgun,“ segir Konráð Alfreðsson varaformaður Sjómannasambands Íslands.

„Ég held að svo lengi sem menn eru að tala saman þá eru menn vonandi alltaf að færast í rétta átt,“ segir Jens Garðar Helgason formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×