Fótbolti

Skoraði hjá sjálfum sér með hjólhestaspyrnu | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohammad Shatnawi.
Mohammad Shatnawi. Vísir/Getty
Markvörður Al Faisaly liðsins í Jórdaníu skoraði afar furðulegt sjálfsmark í einum stærsta leik liðsins á tímabilinu og er ekki beint vinsælasti maðurinn hjá stuðningsmönnum félagsins.

Al Faisaly tapaði 3-0 í Ammam derby-leiknum á móti Al-Wehdat en það var annað mark leiksins sem komst í heimsfréttirnar enda ekki á hverjum degi sem markmenn skora með hjólhestaspyrnu og hvað þá í vitlaust mark.  

Mohammad Shatnawi er landsliðsmarkvörður Jórdaníu auk þess að verja mark Al Faisaly en hann vill örugglega gleyma þessu marki sem sá til þess að mótherjar hans komust í 2-0 í leiknum.

Shatnawi byrjaði reyndar á því að verja vel frá sóknarmanni Al-Wehdat úr dauðafæri í vítateignum en í stað þess að grípa boltann eða koma frákastinu í burtu frá markinu, þá skoraði hann bókstaflega hjá sjálfum sér.

Mohammad Shatnawi spyrnti boltanum nefnilega aftur fyrir sig og í sitt eigið mark. Ótrúlegt sjálfsmark hjá þessum 29 ára markverði sem hefur spilað með Al Faisaly frá 2008 og var því ekki að upplifa þetta derby-stress í fyrsta sinn.

Það var ekki að hjálpa andlegu hliðinni hjá stuðningsmönnum Al Faisaly liðsins en liðið var þarna að spila sjöunda leikinn í röð án þess að ná að vinna.

Hér fyrir neðan má sjá þetta furðulega sjálfsmark Mohammad Shatnawi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×