Íslenski boltinn

Skoraði aldamótabarnið eftir að útivistartíminn var liðinn? | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hinn 16 ára Ágúst Eðvald Hlynsson tryggði Breiðabliki sæti í 8-liða úrslitum Borgunarbikars karla þegar hann skoraði sigurmarkið gegn ÍA á Akranesi í gær.

Mark Ágústs má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ágúst, sem útskrifaðist úr Smáraskóla á þriðjudaginn, kom inn á sem varamaður fyrir Andra Rafn Yeoman á 77. mínútu í stöðunni 1-1.

Staðan var enn jöfn þegar venjulegur leiktími var liðinn og því þurfti að grípa til framlengingar. Og þegar 19 mínútur voru liðnar af henni skoraði Ágúst með laglegu skoti eftir að Ellert Hreinsson skallaði boltann til hans.

Eftir leikinn grínaðist Ellert með það á Twitter að Ágúst, sem er fæddur árið 2000, hefði skorað eftir að útivistartíminn hans var liðinn.

„Þetta var rugluð tilfinning, alveg geðveikt,“ sagði Ágúst í viðtali við Vísi eftir leikinn á Skaganum í gær.

Þetta var annað mark stráksins í Borgunarbikarnum en hann skoraði einnig í 3-0 sigri Blika á 4. deildarliði Kríu í 32-liða úrslitunum.

Auk leikjanna tveggja í Borgunarbikarnum hefur Ágúst komið við sögu í einum leik í Pepsi-deildinni í sumar. En miðað við frammistöðuna í gær verða leikirnir væntanlega mun fleiri á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×