Lífið

Skólinn heitir eftir litháísku fánalitunum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Jurgita bar fram fína köku og mikið var um dýrðir þegar skólinn var settur 7. september síðastliðinn.
Jurgita bar fram fína köku og mikið var um dýrðir þegar skólinn var settur 7. september síðastliðinn.
„Þetta er krefjandi en samt líka mjög gefandi og það er ástæða þess að ég endist svona lengi.“ Þetta segir Jurgita Milleriene um starf sitt sem skólastjóri litháíska móðurmálsskólans Þrír litir síðustu tíu ár.

Jurgita stofnaði skólann fyrir tíu árum í Alþjóðahúsinu og hefur kennt litháískum börnum móðurmál sitt í sjálfboðavinnu síðan. Nú fer kennslan fram í Landakotsskóla á sunnudögum, frá tólf til hálf tvö, og Jurgita segir samstarfið við kirkjuna og prestinn mjög gott.

En af hverju heitir skólinn Þrír litir? Skýringin er sú að litháíski fáninn er gulur, grænn og rauður og nafn skólans tengist þessum þremur litum.



Jurgita er leikskólakennari í Reykjanesbæ að atvinnu og þarf því að keyra til Reykjavíkur á hverjum sunnudegi frá september fram á vor að undanskildum jóla- og páskafríum.

„Já, ég þarf að vakna snemma á sunnudögum,“ segir hún glaðlega. Tekur líka fram að kennarar skólans séu fimm og allir með BA-háskólagráðu, auk þess að hafa sótt ýmiss konar námskeið bæði hér á landi og erlendis.

„Starfsemi skólans blómstrar og kennslan er vel skipulögð og fagleg.“

Nemendurnir í Þremur litum eru frá höfuðborgarsvæðinu og sveitarfélögum í kring, svo sem Akranesi, Mosfellsbæ, Selfossi og Reykjanesbæ, að sögn Jurgitu.

„Þegar við byrjuðum voru nemendurnir 35 en þeim hefur fjölgað og eru nú hátt í fimmtíu. Þeim er skipt í fimm aldurshópa frá tveggja til tíu ára og eldri. En auðvitað eru börnin misjafnlega á vegi stödd í sínu móðurmáli, það fer ekki bara eftir aldri. Sum skilja bara málið en önnur geta talað, skrifað og lesið og því er kennslan einstaklingsmiðuð í raun og veru.“



Árið 2008 var stofnað Félag Litháa á Íslandi og þá varð skólinn Þrír litir hluti af starfsemi félagsins. Þess má geta að sýning um Litháen og litháíska móðurmálsskólann verður opnuð í Kringlusafni Borgarbókasafnsins þann 20. september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×