Innlent

Skólarnir besti vettvangurinn fyrir íþróttafélögin

Linda Blöndal skrifar
Kynningar bannaðar

Íþróttafélögum hefur undanfarin þrjú ár verið bannað að kynna starfsemi sína í grunnskólum.Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að þetta komið illa niður á börnum af erlendum uppruna með annað móðurmál en íslensku en foreldrar þeirra séu til dæmis oft ekki meðvitaðir um að Frístundakort sé í boði.

Íþyngjandi reglur

Nýting kortsins er mun minni í hverfi 111 í Reykjavíkurborg þar sem býr hátt hlutfall fólks af erlendum uppruna. Bannið byggir á þeirri reglu að ekki megi stunda neins konar markaðssetningu í skólum og lífskoðunarfélög megi ekki kynna sig þar - þetta er meðal annars byggt á áliti Umboðsmanns barna og Talsmanni neytenda.

Íþróttafélög ekki sölufyrirtæki

Ingvar segir samstarfið við Reykjavíkurborg hafa verið gott og svo verði vonandi áfram en tekur undir gagnrýnina sem kemur fram í Fréttablaðinu í dag. “Þessar reglur hafa verið íþyngjandi. Íþróttafélög í Reykjavík eru ekki fyrirtæki sem eru að selja einhverja vöru og markaðssetja til barna og er ekki trúar eða lífsskoðunarfélag. Þvert á móti. Íþróttahreyfingin leggur sig í líma við það að veita öllum almenningi og sérstaklega börnum og unglingum, jafnt aðgengi að því starfi sem við erum að vinna”, sagði Ingvar í fréttum Stöðvar tvö í kvöld.

Auka þarf samstarfið

Starfshópur á vegum Skóla og frístundaráðs Reykjavíkur skilaði af sér skýrslu í mars síðastliðnum um heilsueflingu og hreyfingu grunnskólabarna og þar var einmitt nefnt að auka þyrfti samstarf hinna ólíku íþróttafélaga borgarinnar og skóla. En eins og er, er ekki sátt um ríkjandi fyrirkomulag. “Við verðum að leyfa því starfi sem er í hverju hverfi fyrir sig að þróast á sinn hátt. Þetta er spurning um stjórnun og skipulag”, sagði Ingvar og bætti við að skólarnir væru sá miðpunktur sem næði til allra flesta, og þar með yrðu færri útundan.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri sagði í samtali við fréttastofu í dag að skólastjórnendur kalli á almennar reglur en borgin væri þó opin fyrir því að skoða málið betur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×