Innlent

Skikka starfsmenn til að taka aukavaktir

Höskuldur Kári Schram skrifar
Geislafræðingar saka Landspítalann um að brjóta gegn lögbundnum hvíldartíma starfsmanna með því að skikka þá til að taka aukavaktir. Formaður Félags geislafræðinga hefur sent formlega kvörtun til yfirstjórnar spítalans vegna þessa en dæmi eru um að fólk hafi unnið margar sextán tíma vaktir í röð.

Uppsagnir 17 geislafræðinga á Landspítalanum tóku gildi á mánudag en það er um fjórðungur starfandi geislafræðinga á spítalanum. Uppsagnirnar koma í kjölfar verkfalla fyrr í sumar og hefur álagið því aukist gríðarlega á undanförnum vikum.

Geislafræðingar segja að spítalinn reyni að mæta þessum vanda með því að neyða starfsmenn til að vinna aukavaktir.

„Ég hef heyrt af fólki sem vinnur dag eftir dag sextán tíma í röð. Fær átta tíma hvíld á milli sextán tíma vakta. Ég er að heyra af fólki sem er verið að skikka þannig að það er búið að vinna meira en í tvær vikur. Þetta fólk á að fá sína lögbundnu frídaga og sína  lögbundnu hvíld,“ segir Katrín Sigurðardóttir formaður Félags geislafræðinga.

Katrín segir þetta vera skýrt brot á gildandi samningum og hefur félagið kvartað formlega til framkvæmdastjóra rannsóknarsviðs Landspítalans.

Díana Óskarsdóttir deildarstjóri röntgendeildar Landspítalans segir að spítalinn sé fyrst og fremst að bregðast við þeim vanda sem nú er uppi og ekki sé verið að brjóta gegn gildandi samningum.

"Það hefur verið þannig að starfsmenn hafa ekki viljað taka aukavaktir. Fólk hefur verið að skrifa sig á aukavaktalista fram að þessu en gerir það ekki núna þannig að þá þurfum við að biðja fólk um að taka vaktirnar. Ég er búin að taka þetta saman. Það er um 20 prósent umfram vinnuskyldu sem fólk var að vinna að meðaltali núna í ágústmánuði sem er óvenju mikið. Í júní og júlí var þetta heldur minna,“ segir Díana. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×