Innlent

Skemmdir lögreglubíla kostuðu 11 milljónir

Snærós Sindradóttir skrifar
Bifreið sérsveitarinnar varð fyrir miklu tjóni þegar hún ók neyðarakstur árið 2015.
Bifreið sérsveitarinnar varð fyrir miklu tjóni þegar hún ók neyðarakstur árið 2015. Fréttablaðið/vilhelm
Símtölum til neyðarlínunnar 112 fjölgaði um helming á milli ára 2014 og 2015. Þetta kemur fram í ársskýrslu Ríkislögreglustjóra sem gefin var út á mánudag.

Árið 2015 voru svokölluð verkefnatengd símtöl til lögreglu í gegnum 112 alls 91.495. Árinu áður voru þau 60.881. Engar skýringar fengust hjá Embætti ríkislögreglustjóra um ástæðu fjölgunarinnar og engin svör um efni skýrslunnar að neinu leyti.

Sérsveit ríkislögreglustjóra tók þátt í 405 verkefnum árið 2015, þar af voru 198 sérsveitarverkefni og í 104 þeirra voru sérsveitarmenn vopnaðir skotvopnum.

Tjón á ökutækjum embættisins minnkaði á milli ára og voru 58 talsins. Tjónið var þó mun dýrara árið 2015 en árið þar á undan og nam um 11,3 milljónum króna. Tjón á lögreglubílum verða vegna hraðahindrana, þrenginga á akbrautum og vegriða. Þá valt jeppabifreið lögreglunnar á Austurlandi við Dreka í Holuhrauni og skemmdist. Lögreglubifreið sérsveitar skemmdist líka í umferðaróhappi þegar sérsveit ók neyðarakstur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×