Íslenski boltinn

Sjö prósent leikmanna á Íslandi veðja á úrslit eigin leikja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik í Pepsi-deild karla síðastaliðið sumar. Myndin eða leikmennirnir á henni tengjast innihaldi fréttarinnar ekki beint.
Úr leik í Pepsi-deild karla síðastaliðið sumar. Myndin eða leikmennirnir á henni tengjast innihaldi fréttarinnar ekki beint. Vísir
Stór hópur leikmanna íslenskra félagsliða veðja á úrslit eigin leikja eða um sjö prósent. Þetta er niðurstaða víðtækrar rannsóknar sem gerð var á þátttöku leikmanna í peningaspilum.

Niðurstaðan verður kynnt á ráðstefnu um rannsóknir í líf og heilbrigðisvísindum í Háskóla Íslands sem haldin verður á Háskólatorgi 3. og 4. janúar.

Ágrip úr erindi þeirra Daníels Ólasonar, Kristjáns Óskarssonar, Tryggva Einarssonar og Hafrúnar Kristjánsdóttur sem sáu um framkvæmd rannsóknarinnar hefur verið birt í Læknablaðinu, sem lesa má hér á bls. 26. Erindið verður flutt kl. 14.50 en dagskrá ráðstefnunnar má sjá hér.

2170 leikmenn átján ára og eldri 105 félagsliða á Íslandi fengu spurningalista og fengust svör frá 725 leikmönnum eða 33% af heildarfjölda leikmanna.

Meðal þess sem kemur í ljós að tveir af hverjum þremur sem svöruðu höfðu tekið þátt í peningaspili á undanförnu ári og um fimmti hver spilar vikulega eða oftar.

Flestir veðja á leiki á erlendum vefsíðum en sem fyrr segir hafa sjö prósent þeirra sem svöruðu, um 50 manns, veðjað á úrslit eigin leikja.

Það er vitanlega bannað samkvæmt reglum KSÍ en það er raunar svo að öllum samningsbundnum leikmönnum á Íslandi er óheimilt að veðja á íslenska knattspyrnuleiki.

Reglulega hafa komið upp mál þar sem grunur hefur vaknað um að leikmenn á Íslandi hafi veðjað á eigin knattspyrnuleiki. Þó hefur ekki tekist að færa sönnur á það.

Vorið 2014 vöknuðu grunsemdir um að leikmaður Dalvíkur/Reynis hefði veðjað á úrslit leik liðsins gegn Þór í móti í janúar það ár en rannsókn KSÍ á málinu leiddi ekkert í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×