Lífið

Sjö ára stelpa: „Mamma segir að ég sé í fimleikum til að fá fallegan líkama"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki.
Myndin tengist fréttinni ekki.
Fimleikaþjálfarinn Glódís Guðgeirsdóttir segir frá því á Twitter-síðu sinni að ein sjö ára stúlka hafi sagt henni að móðir hennar vilji að hún sé í fimleikum til þess að fá fallegan líkama.



„Ég fékk bara fyrir hjartað þegar hún sagði þetta," útskýrir Glódís í samtali við Vísi og segir að þarna hafi stúlkunni verið send ákaflega röng skilaboð.

„Í fyrsta lagi finnst mér sérstakt að móðir skuli hugsa svona í og í öðru lagi finnst mér mjög einkennilegt að hún hafi sagt þetta fyrir framan barnið," bætir fimleikaþjálfarinn við.

Hún segist ekki telja að þetta sé útbreidd skoðun margra ungra stúlkna í fimleikum. „Ég vona allavega ekki. Ég vona að þær sjái þetta ekki svona." Hún segir að krakkar fái svo miklu meira út úr iðkun fimleika en bara fallegan líkama. Henni finnst ekki rétt að hafa útlitið í fyrirrúmi þegar það kemur að iðkun íþróttarinnar, sérstaklega fyrir sjö ára stúlkur.

„Krakkar læra aga og margt fleira í fimleikum. Þegar ég var ung og var að byrja að æfa fimleika dýrkaði ég þetta sport algjörlega og taldi niður daganna á milli æfinga."

Á Twitter segist Glódís jafnframt ætla að ræða við mömmuna.

Auður segir mikilvægt að gæta þess hvernig rætt sé við börn.
Mikil pressa að útlitið sé á tiltekinn hátt

Auður Magndís Auðardóttir en kynjafræðingur og hún segir að það sé þekkt í fræðunum að sjálfsálit krakka geti beðið hnekki á unglingsárum. Þar hafi pressa um útlit mikil áhrif.

„Allir verða fyrir þessari pressu, bæði stelpur og strákar. En það eru sterkar vísbendingar um að þessi pressa hafi meiri áhrif á stelpur, þó svo hún hafi líka áhrif á strákana," útskýrir Auður og heldur áfram:

„Börn fá rosalega mikið af skilaboðum um að útlitið eigi að vera á tiltekinn hátt. Þetta er ekki bara eitthvað eitt dæmi, heldur fjölmörg. Í tímaritum, í tölvuleikjum og í bíómyndum. Og líka frá foreldrum og fólkinu í kringum þau. Þessi skilaboð safnast öll saman og geta haft áhrif á sjálfsmyndina síðar meir. Við getum í raun líkt þessu við Legó-kubba, sem byggjast upp og mynda heild sem hefur áhrif."

Auður segir að mikilvægt sé að huga að því hvaða skilaboð börnum séu send. „Það er mikilvægt að við fullorðna fólkið séum meiðvituð um að þessu litlu kmment komi saman og hafi áhrif. Það ætlar sér auðvitað enginn að búa til pressu á börn. En stundum segir fólk eitthvað ómeðvitað. Maður þarf endalaust að vera að passa sig. Við erum vön að tala á ákveðinn hátt um líkama og útlit og það hefur allt áhrif á börnin okkar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×