Innlent

Sjálfsskaðandi hegðun íslenskra ungmenna: „Þegar þú byrjar einu sinni er erfitt að hætta“

Anton Egilsson skrifar
Nokkuð er um að íslensk ungmenni, og þá sér í lagi ungar stúlkur, hvetji hvert annað til að stunda sjálfsskaðandi hegðun á lokuðum síðum á netinu. Talið er að allt að 17 þúsund íslensk ungmenni á aldrinum 14 til 24 ára hafi skaðað sig einhvern tíma og 5 þúsund þeirra hafi skaðað sig reglulega.

Rætt var við Ragnhildi Erlu Þorgeirsdótti í fréttatíma Stöðvar tvö í kvöld um reynslu hennar af þessum heimi.

„Þegar þú byrjar einu sinni er erfitt að hætta“ segir Ragnhildur en hún byrjaði að skera sig einungis 14 ára gömul. 

Hún segist hafa ákveðið að prófa að skaða sjálfa sig eftir að hafa séð stelpu sem var að æfa með henni skauta skera sig í sturtuklefanum. Í fyrsta skiptið notaðist hún við eldhúshníf til að skera sig en í kjölfarið fór hún að fikta sig áfram með önnur áhöld. Á einum tímapunkti prófaði hún svo að brenna sig.

Auðvelt að fela áverkana

Sjálfsskaðahegðun Ragnhildur náði hámarki þegar hún var 17 og 18 ára. Lengst af náði hún að halda skurðunum leyndum en hún segir feluleikinn fremur auðveldan.  

„Yfirleitt byrjar fólk á þessu þegar það kemur á unglingsárin. Þegar maður fer á unglingsárin er maður minna með foreldrum sínum, maður er meira úti, og kannski ekki að labba um nærbuxunum lengur“ segir Ragnhildur.

Sem dæmi um hve algeng sjálfsskaðahegðun er segir hún að í hennar vinahópi bæði í grunn- og framhaldsskóla og þeim íþróttum sem hún stundaði hafi alltaf verið dæmi um stelpur sem stunduðu það að skera sig. Það hafi þó alltaf verið gert í einrúmi.

Mikilvægt að foreldrar ræði vandann

Hún segir dæmi um það að fólk sæki hvatningu í ýmsar síður á netinu, til að mynda á svokölluðum tumblr bloggsíðum og á lokuðum hópum á Facebook. Það er hennar tilfinning að inn á þessum síðum sé metingur í gangi milli fólks, hver sé með dýpsta skurðinn eða beri versta brunasárið. 

Ragnhildur telur mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um hve algeng sjálfsskaðandi hegðun er. Sé vandi til staðar þá sé mikilvægt að ræða hann og reyna að hafa eftirlit með honum.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í myndspilaranum hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×