Innlent

Sex þúsund vilja gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Barnaheill segja að skólinn eigi að útvega öll gögn, hvort sem það eru ritföng eða annað.
Barnaheill segja að skólinn eigi að útvega öll gögn, hvort sem það eru ritföng eða annað. vísir/vilhelm
Hátt í sex þúsund manns hafa skorað á stjórnvöld að beita sér fyrir breytingu á grunnskólalögum þannig að námsgögn í grunnskólum verði gjaldfrjáls. Farið er fram á að óheimilt verði að krefja foreldra um innkaup á gögnum eða taka við greiðslu fyrir gögn sem nota á vegna skólagöngu barna.

Nemendur í níunda bekk Háteigsskóla ásamt framkvæmdastjóra Barnaheilla munu afhenda Kristjáni Þór Júlíussyni áskorunina í hádeginu í dag, en Barnaheill hafa frá árinu 2015 vakið athygli á kostnaði foreldra vegna innkaupa á námsgögnum grunnskólabarna.

Telja samtökin að slíkur kostnaður sé töluverður baggi á barnafjölskyldur en að jafnframt sé hann í ósamræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Sáttmálinn var lögfestur á Íslandi 20. febrúar 2013 og gildir því sem lög hér á landi. Í 28. grein hans er börnum tryggð gjaldfrjáls grunnmenntun og er kostnaðarþátttaka foreldra því í raun ólögleg. Þess vegna er óásættanlegt að innkaupalistar skuli enn vera við lýði í flestum grunnskólum landsins,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Þá er skorað á yfirvöld að vinna að þessum breytingum eins fljótt og auðið er svo innkaupalistar verði ekki sendir út fyrir næsta skólaár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×