Innlent

Sex ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertri tengdamóður

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. VÍSIR/PJETUR
Karlmaður var í dag dæmdur í sex ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertri tengdamóður sinni í Héraðsdómi Vesturlands.

Konan er 53 ára og hefur búið við þroskaskerðingu frá frumbernsku en hún veiktist mánaðargömul af krampaköstum.

Upp komst um málið í lok árs 2012 þegar dóttir konunnar kom að sambýlismanni sínum hafa mök við móður hennar. Hún greindi frá þessu í skýrslutöku hjá lögreglu snemma árs 2013. Þar kom fram að konuna hafði grunað um nokkur skeið að sambýlismaður sinn hefði misnotað móður hennar kynferðislega. Hún hefði ekki fengið það staðfest fyrr en hún kom að þeim.

Ekki fallist á að konan skildi þýðingu samfaranna

Maðurinn játaði að hafa frá byrjun árs 2012 til desember 2012 haft samræði við konuna í að minnsta kosti þrjú skipti í hverjum mánuði. Konan sagði að hann hefði haft samræði við sig eftir að upp komst um málið og fram í febrúar 2013. Maðurinn neitaði því. Gegn neitun hans fyrir dómi var ekki sannað að hann hefði haft samræði við konuna eftir desember 2012.

Maðurinn viðurkenndi að hann hafi gert sér grein fyrir fötlun konunnar. Sú vörn hans að hún hafi sjálf viljað eiga mök við hann þótti dóminum haldlaus þegar litið væri til hvernig andlegri fötlunar konunnar er háttað. Var með engu móti fallist á það með manninum að konan hafi skilið þýðingu samfaranna.

Ekki var talið að maðurinn ætti sér neinar málsbætur aðrar en að hann játaði sök. Hann hefði þráfaldlega brotið gegn andlega fatlaðri tengdamóður sinni sem hann hélt heimili með ásamt konu sinni. Hann hafi þannig brugðist þeirri skyldu sinni að styðja hana og vernda vegna fötlunar hennar. Þvert á móti hafi hann brotið gróflega gegn henni kynferðislega.

Stjúpfaðir konunnar einnig grunaður 

Eftir að upp komst um málið í fyrra hófst umfangsmikil rannsókn sem leiddi í ljós að fleiri menn höfðu líklega misnotað konuna um langt skeið. Konan greindi frá því að stjúpfaðir hennar og tveir bræður hans sem nú eru látnir hefðu brotið gegn sér.

Stjúpfaðirinn var settur í gæsluvarðhald grunaður um að hafa misnotað stjúpdóttur sína í um 40 ár. Ríkissaksóknari ákvað í janúar síðastliðnum að maðurinn skyldi ekki ákærður þar sem gögn málsins þóttu ekki nægjanleg til sakfellis. 


Tengdar fréttir

Fagráð um kynferðisofbeldi gegn fötluðu fólki

„Upphafi má meðal annars rekja til málsins með Karl Vigni Þorsteinsson en hann hafði á sínum tíma komið að starfsemi innan Blindrafélagsins,“ segir Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins.

Kynferðisbrotamáli vísað aftur til lögreglu

Lögreglan á Akranesi bíður nú eftir niðurstöðum úr læknisrannsóknum og gögnum um sjúkrasögu rúmlega áttræðs manns af Snæfellsnesi sem grunaður er um að hafa brotið kynferðislega gegn stjúpdóttur sinni í áratugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×