Innlent

Settu hettu á höfuð hans og börðu með kúbeini

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/STEFÁN
Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem grunaður er um aðild að grófri líkamsárás á dögunum.

Málavextir voru þeir að lögreglunni barst tilkynning um klukkan 04:30 aðfaranótt sunnudagsins síðastliðinn um að ráðist hafi verið á konu í annarlegu ástandi. Hún talað hratt og óskýrt og reyndist vera í blóðugum fötum þegar lögreglan vitjaði hennar.

Konan greindi frá því að hún hafi ásamt þremur öðrum farið til fundar við þrjá aðra menn í Hafnarfirði vegna peningaskuldar en mannamótin hafi fljótlega farið úr böndunum.  Skömmu síðar hafi verið ákveðið að hittast aftur en þeim fundi lauk með því að konunni og einum þremenninganna var ýtt inni í bíl og þau keyrð í burtu.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram konan flúið með því að skríða út um glugga á bílnum. Manninum var hent út í Hafnarfirði með áverka á höfði, hugsanlega eftir kúbein.

Samferðamaður konunnar greindi frá því í samtali við lögreglu að áður en þeir hafi sett hann inn í bifreiðina þá hafi þeir sett hettu yfir höfuðið á honum og ekið honum á einhvern ókunnugan stað þar sem þeir hafi farið út úr bifreiðinni og inn í hús. Þar hafi þeir síðan veitt honum enn frekari áverka og í kjölfarið ekið honum að í húsi Hafnarfirði. Lögregla eigi eftir að finna hvar þetta húsnæði sé en allt kapp sé lagt í að finna það sem fyrst en hugsanlegt sé að þar megi finna áhaldið sem brotaþoli segist hafa verið laminn með.

Samkvæmt bráðabirgðavottorði er fórnarlambið höfuðkúpubrotið, nefbrotið og ristarbrotið. Þá hafi þurft að sauma þrjá skurði, tvo á enni og einn á kálfa. Rannsókn málsins er þó skammt á veg komið.

„Það sé mat lögreglustjóra að hér sé um að ræða mjög grófa atlögu að lífi og heilbrigði brotaþola. Svo virðist vera sem árásin hafi verið algjörlega tilefnislaus. Þá hafi hann hlotið mjög alvarlega áverka og hending ein að ekki hafi farið verr. Það sé mat lögreglu að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að reyna að hafa áhrif á framburð vitna og annarra samseka, koma undan vopnum og afmá öll önnur ummerki um árásina,“ segir meðal annars í greinargerðinni.

Því hafi gæsluvarðhaldsúrskurðurinn verið staðfestur og rennur hann út 18. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×