Innlent

Séra Hildur styrktist í trúnni gegn spilavítum í ferð til Las Vegas

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Séra Hildur Eir Bolladóttir vill ekki sjá spilavíti á Íslandi.
Séra Hildur Eir Bolladóttir vill ekki sjá spilavíti á Íslandi. Vísir/Auðun Níelsson
„Já,já èg er að drepast úr forræðishyggju en èg vil líka frekar drepast úr henni en frjálsu andvaraleysi,“ segir séra Hildur Eir Bolladóttir, prestur við Akureyrakrikju, um þær hugmyndir að þingið heimili opnun spilavíta hér á landi.

Séra Hildur vakti athygli á málinu á Facebook og ritaði þar athugasemd við frétt Vísis um að meirihluti Íslendinga væri andvígur opnun spilavíta á Íslandi:

„Mèr finnst að Almannavarnir ættu líka að senda út sms til að vara landsmenn við þessu, spilavíti eru sálarmengandi og þeir sem eru með meira fíkninæmi en aðrir eru í sèrstakri hættu.“

Styrktist í trú sinni í Las Vegas

Í samtali við Vísi segir séra Hildur frá því að hún hafi lengi verið á þessari skoðun, en hafi styrkst í sinni afstöðu þegar hún fór til Las Vegas í apríl. „Ég gisti á hóteli sem einnig var spilavíti í. Þar sannfærðist ég um hvað það er mikil þjáning fólgin í þessari spilavítamenningu, ef menningu skyldi kalla. Þegar maður vaknaði á morgnanna og fór niður í anddyrið sá maður kannski sama fólkið og maður hafði séð kvöldið áður. Í sömu fötunum, með sígarettuna og bjórinn að reyna að vinna peninga í spilavítinu.“

Séra Hildur bendir einnig á að spilafíkn er sterk fík. „Ég fæ fólk til mín í sálgæslu sem hefur glímt við spilafíkn. Ég fæ líka aðstandendur og fjölskyldumeðlimi spilafíkla til mín. Í fíknifræðunum er sagt að spilafíkn sé ein erfiðasta fíknin,“ segir hún og bætir við:

„Við vitum að það er margt fólk sem er að glíma við þessa fíkn. Við vitum að spilafíkn hefur valdið þjáningu, eyðilagt mannslíf margra og splundrað fjölskyldum. Af hverju er þá verið að íhuga að koma með spilavíti hingað til lands? Getum við ekki bara verið stolt af því að vera þjóð sem býður ekki upp á spilavíti?“

Hildur Eir gisti í Las Vegas í Apríl.
Rússnesk rúlletta 

Séra Hildur segist skilja að spilavíti gæti haft tekjur og erlendan gjaldeyri í för með sér en bendir samt sem áður á nokkur atriði sem tengjast þeim rökstuðningi fyrir því að leyfa starfsemi spilavíta hér á landi:

„Það er sagt að við fáum túrista og gjaldeyri hingað inn. Gott og vel. En koma túristar okkur ekki við? Eru þeir ekki líka bræður okkar og systur? Eigum við að græða á því að þeir séu að koma hingað og spila í spilavítunum okkar?“

Hún segist vilja skoða aðra hluti en spilavíti til þess að fá fólk til landsins. „Af öllu sem við getum gert til að skapa tekjur og skemmta okkur; af hverju þetta af öllu? Af hverju að leyfa spilavíti, sem við vitum að er rússnesk rúlletta?“

Veðmál og póker í gegnum netið er vinsæl iðja og séra Hildur segir erfitt að takmarka það. „Auðvitað er erfiðara að eiga við það. Þar er fólk inni á sínum heimilum og nýtur sinnar friðhelgi. En ég skil ekki að samfélagið og þingheimur þurfi að samþykkja þetta. Það þarf að skoða þetta út frá fleiri hliðum og muna að þeir sem vilja stunda fjárhættuspil eru ekki eyland.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×