Innlent

Sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi heldur til Afganistan

Atli Ísleifsson skrifar
Jóhann Thoroddsen og Alberto Cairo.
Jóhann Thoroddsen og Alberto Cairo. Mynd/Rauði krossinn
Jóhann Thoroddsen, sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi, hélt til Afganistan í gær þar sem hann mun starfa á Endurhæfingarstöð Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) í Kabúl.

Í tilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi segir að hreyfingin hafi, ásamt utanríkisráðuneytinu, stutt við starfsemi Endurhæfingarstöðvarinnar allt frá árinu 2012. Stöðin er meðal annars ætluð fórnarlömbum jarðsprengna og stríðsátaka sem hafa misst útlimi.

Jóhann er sálfræðingur og er að fara til Kabúl sem sendifulltrúi í annað sinn. Fyrir réttu ári hélt hann námskeið fyrir starfsfólk og og fyrrum skjólstæðinga Endurhæfingarstöðvarinnar í sálrænum stuðningi. Í sendiförinni komi Jóhann til með að byggja ofan á þá grunnvinnu sem hafi verið lögð fyrir ári síðan.

Í tilkynningunni segir að skjólstæðingar Rauða krossins hafi í Endurhæfingarstöðinni fengið gervilimi, sálrænan stuðning og starfsþjálfun til að gera þeim kleift að taka þátt í daglegu lífi á nýjan leik.

„Endurhæfingarstöð ICRC í Kabúl hefur vakið heimsathygli. Starf stöðvarinnar er leitt af Alberto Cairo en hann hefur varið síðustu 26 árum í Afganistan við mannúðarstörf og endurhæfingu fórnarlamba stríðsátaka. Skjólstæðingar stöðvarinnar hafa náð ótrúlegum árangri, meðal annars með virkri þátttöku í íþróttum, leikjum og starfi. Skjólstæðingar eru hvattir til að snúa aftur í atvinnulífið og fá til þess stuðning og leiðsögn auk þess sem þeir eiga kost á hagstæðum lánum til að greiða götu viðskiptahugmynda. Meðal þeirra sem hafa stutt við starfið eru fótboltakappar á borð við Paul Pogba, Philipp Lahm, Lionel Messi og Cristiano Ronaldo ásamt Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×