Innlent

Segja svör um bílafríðindi Dags óljós og spyrja áfram

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sótt er að borgarstjóra vegna notkunar á bílum Reykjavíkurborgar á síðasta kjörtímabili.
Sótt er að borgarstjóra vegna notkunar á bílum Reykjavíkurborgar á síðasta kjörtímabili. Fréttablaðið/Arnþór
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja að upplýst verði hvort „bílatengdar starfsgreiðslur“ til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hafi „verið skertar í ljósi notkunar hans á bifreiðum í eigu borgarinnar“ þegur Dagur var formaður borgarráðs á síðasta kjörtímabili.

Sjálfstæðismenn segja var S. Björns Blöndals, oddvita Bjartrar framtíðar og núverandi formanns borgarráðs, við fyrri fyrirspurn þeirra um notkun á bílum borgarinnar vera „um margt óljóst. Af því megi þó ráða að Dagur hafi notið bílafríðinda á síðasta kjörtímabili í verulegum mæli umfram aðra borgarfulltrúa og án þess að leyfi hafi verið gefið fyrir því á þar til bærum vettvangi.

„Í lok svarsins er sérstaklega tekið fram að í starfskostnaði borgarfulltrúa sé ekki gert ráð fyrir kostnaði við rekstur bifreiða, væntanlega í því skyni að réttlæta umrædda notkun borgarfulltrúans á bílum í eigu borgarinnar. Í gildandi samþykkt um starfskostnað borgarfulltrúa kemur hins vegar skýrt fram að starfsgreiðsluupphæðin sé til þess að mæta öllum persónulegum starfskostnaði og þar með séu taldar ferðir innan höfuðborgarsvæðisins,“ benda sjálfstæðismenn á í nýrri fyrirspurn í borgarráði í gær.

Þá segjast sjálfstæðismenn hafa bent á þetta misræmi í borgarstjórn í september og spurt hverju það sætti. „Og einnig hvort bílatengdar starfsgreiðslur til borgarfulltrúans hefðu verið skertar í ljósi notkunar hans á bifreiðum í eigu borgarinnar.“

„Jafnframt er sú spurning ítrekuð á hvaða vettvangi ákvörðun um umrædd bílafríðindi var tekin og af hverjum. Þá er einnig óskað eftir nánari upplýsingum um notkun borgarfulltrúans á bifreiðum borgarinnar þegar ekki var um það að ræða að hann væri að sinna starfsskyldum staðgengils borgarstjóra. Brýnt er að skýrar reglur gildi um bílafríðindi kjörinna fulltrúa og að komið verði í veg fyrir notkun á bifreiðum Reykjavíkurborgar án þess að skýr heimild liggi fyrir um slíkt,“ bókuðu sjálfstæðismenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×