Innlent

Segja prestinn skulda 839 þúsund fyrir að rífa innréttingar úr fjárhúsi án leyfis

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Oddur Einarsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, segir því hafnað af hálfu fasteignasviðs kirkjunnar að prestsbústaðurinn á Staðastað sé óíbúðarhæfur eins og sóknarpresturinn Páll Ágúst Ólafsson sagðist í Fréttablaðinu í gær telja að eftir væri að skera úr um.

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands skoðaði íbúðarhúsið á Staðastað 31. mars að ósk kirkjunnar. Viðstaddir voru fulltrúar kirkjunnar og starfsmaður verkfræðistofunnar Verkís auk sóknarprestsins sjálfs. Tilefnið var að endurbótum á húsinu var nýlega lokið eftir að fjölskyldan flúði það vegna heilsuvandamála sem talin voru stafa af myglu.

Meðal þess sem var gert var að setja niður drenlögn, kjallaragólf var brotið upp og þurrkað og sótthreinsað áður en það var flotað. Parket var lagt á herbergi, veggir í millibyggingu rifnir og endurnýjaðir og hiti settur í gólfplötu.

Heilbrigðiseftirlitið, sem í október 2015 hafði gert alvarlegar athugasemdir við ástand og viðhald hússins, vitnaði í sinni greinargerð til skýrslu Verkís um töku loftsýna og snertisýna frá 1. mars.

„Við úttekt Heilbrigðiseftirlits Vesturlands á húsnæðinu er niðurstaðan sú að HeV telur að unnið hafi verið af fagmennsku við endurbætur og að húsnæðið sé komið í samt lag og ekki heilsuspillandi,“ er niðurstaðan.

„Mínir ráðgjafar hjá Eflu segja að í ljósi heilsufars fjölskyldunnar þyrfti umfangsmeiri prufur en þarna var ráðist í og eftir fund minn með biskupi í október var það sameiginleg niðurstaða okkar að vafi væri á að húsið væri íbúðarhæft,“ svarar Páll Ágúst á hinn bóginn.

Oddur Einarsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, hafnar fullyrðingum Páls Ágústs í Fréttablaðinu í gær um að kirkjan vilji ekki leyfa prestinum að láta taka sýni úr veggjum íbúðarhússins á Staðastað til að ganga úr skugga um að myglan sé horfin eftir endurbæturnar og hugsanlega finna út hvaða tegundir af myglusveppum séu í húsinu svo prestsfjölskyldan geti fengið viðeigandi læknismeðferð.

„Það segir sig sjálft að við myndum ekki setja okkur á móti því,“ segir Oddur, sem kveður prestinn aldrei hafa boðist til að greiða slíka rannsókn. Þvert á móti hafi hann viljað að kirkjan greiddi kostnaðinn. „Í kröfugerð sóknarprestsins er krafa um að allur útlagður kostnaður hans verði greiddur af Kirkjumálasjóði.“

Séra Páll Ágúst vill bætur vegna tjóns sem fjölskyldan hafi orðið fyrir vegna afhendingartíma og ástands prestsbústaðarins.

Einnig vill hann bætur vegna tekna af veiðihlunnindum og dúntekju sem ekki hafi skilað sér. Kirkjan var reiðubúin að greiða samtals rúmar 1.800 þúsund krónur vegna þessara liða en þá væri búið að draga frá 839 þúsund krónur sem Páll Ágúst var sagður skulda vegna „ óheimils niðurrifs innréttinga í fjárhúsi“, eins og það var orðað í sáttatillögu kirkjunnar.

Þessu atriði var svarað með bréfi frá lögmanni Páls Ágústs. „Það er umbjóðanda mínum óskiljanlegt að umræddar framkvæmdir séu klæddar í búning niðurrifs,“ segir í bréfi lögmanns prestsins varðandi þetta atriði. „Slíkt er bæði ósanngjarnt og í andstöðu við samþykkt kirkjuráðs.“

Páll segir þar vísað til þess að kirkjuráð hafi samþykkt að sett yrði upp sögusafn í fjárhúsinu til að heiðra minningu Ara fróða og það sé sjálfgefið að þá þyrftu gamlar krær og jötur úr fjárhúsinu að víkja.

„Það leiðir af sjálfu sér að við hefðum ekki krafið hann um endurgreiðslur ef hann hefði fengið leyfi,“ svarar framkvæmdastjóri kirkjuráðs hins vegar um fjárhúsið.

Í síðustu viku lagði Páll Ágúst fram nýtt tilboð sem kirkjuráð hafnaði á laugardag. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu

 

Viðbrögð fasteignasviðs Kirkjumálasjóðs við ummælum sóknarprestsins á Staðastað í blaðagrein í Fréttablaðinu 1. mars 2017.

Sóknarpresturinn tók við prestsetrinu hinn 29. júlí 2014 en fráfarandi sóknarprestur hafði nýtt sér rétt sinn til að sitja jörðina til fardaga. Þá voru liðnir 8 mánuðir frá því hann tók við embætti sínu. Miklar endurbætur voru gerðar á húsinu áður en hann tók við því.

Í ágúst 2014 gerir hann fasteignasviðinu grein fyrir því að mikið af silfurskottum séu í prestsetrinu og hann hyggist láta eitra fyrir þeim. Fasteignasviðið bregst strax við og samþykkir að greiða reikning fyrir slíkt.

Í september 2014 gerir sóknarprestur fasteignasviði grein fyrir því að endurnýja þurfi baðherbergi á 2. hæð hússins og grunur sé um myglu í húsinu.

Í apríl 2015 ítrekar sóknarprestur að að baðherbergi á 2. hæð sé orðið lélegt og grunur sé um að þar sé raki. Fasteignasvið bregst með því að lofa skoðun á húsinu.

Fasteignasvið fær verkfræðistofuna VERKÍS til að framkvæma mælingu á raka. Sú mæling fer fram hinn 30. september 2015 og ástandsskýrsla gefin út 15. október. Raki reynist mikill í botnplötu hússins og raki og mygla í tengibyggingu milli hússins og bílageymslu. Þá reynist mygla í baðherbergi á 2. hæð. Mælt er fyrir um viðeigandi aðgerðir til að eyða rakanum og komast fyrir mygluna.

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands gerði úttekt á húsnæðinu að beiðni sóknarprests. Það gerði sóknarpresti grein fyrir niðurstöðu hennar með bréfi hinn 19. október þar sem húsið er sagt heilsuspillandi og ráðlagt að íbúar flytji úr því meðan viðgerð stendur yfir.

Fasteignasvið gerði áætlun um framkvæmdirnar og bauð sóknarpresti nýlegt húsnæði á Arnarstapa með öllum húsgögnum á meðan á framkvæmdum stæði. Sóknarprestur afþakkaði boðið en flutti úr húsinu og settist að í Borgarnesi.

Framkvæmdum lauk í febrúar 2016 og hinn 10. febrúar ritar biskup sóknarpresti bréf þar sem fram kemur að þess sé vænst að aðsetur hans verði að Staðastað frá næstu mánaðamótum.

Hinn 29. mars gaf verkfræðistofan VERKÍS út lokaúttektarblað eftirlits. Þar kemur fram að sex loftsýni hafi verið tekin sem sýndu að rakastig væri orðið eðlilegt og engin mygla mældist í húsinu. Á úttektarfundi hinn 31. mars leggur sóknarprestur fram skjal með 33 spurningum varðandi framkvæmdirnar og er VERKÍS falið að svara þeim. VERKÍS gerir það með minnisblaði dags. 9. apríl og kemur þar fram að ekkert bendi til annars en að vel hafi tekist til með lagfæringar á húsinu, reyndir og vandaðir fagmenn hafi verið fengnir til að annast þær og húsinu hafi verið skilað í góðu lagi. Hinn sama dag gefur Heilbrigðiseftirlit Vesturlands út nýja skoðunarskýrslu þar sem fram kemur að unnið hafi verið af fagmennsku við endurbætur og húsnæðið sé komið í samt lag og sé ekki heilsuspillandi.

Hinn 7. júlí setur sóknarprestur fram kröfur sínar um efndir ráðningarkjara og tjónsbætur. Hinn 14. október er haldinn fundur biskups og sóknarprests og þar verður sameiginleg niðurstaða sú að sóknarprestur verði leystur undan búsetuskyldu á Staðastað þrátt fyrir að allir úttektaraðilar væru sammála um að húsið væri í fullkomnu lagi. Hinn 29. desember er kröfum sóknarprests svarað með tillögu að uppgjöri. Svar berst hinn 31. janúar en svarið hafði ekki að geyma gagntilboð eins og vænst var. Hinn 8. febrúar 2017 er lögmanni sóknarprests send hvatning um að svara tilboðinu með gagntilboði. Hinn 24. febrúar barst tilboð sóknarprestsins um lokauppgjör sem lagt var fyrir fund kirkjuráðs daginn eftir og kirkjuráð hafnaði tilboðinu.

mars 2017

Oddur Einarsson

framkvæmdastjóri kirkjuráðs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×